146. löggjafarþing — 51. fundur,  30. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[18:03]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Umræðan verður eðli málsins samkvæmt svolítið skrýtin þegar við spyrjum ýmissa spurninga, viðurkennum að við skiljum ekki hvernig þeir sem leggja þingmálið fram hafa hugsað það til enda og viljum fá skýrari svör við spurningum okkar, en það er enginn viðmælandi. Ég verð að viðurkenna að ég skil ekki hvernig þetta er hugsað. En það læðist óneitanlega að manni sá leiðinlegi grunur að þetta sé bara byggt á pólitískri hugmyndafræði sem eigi að keyra í gegn hvað sem tautar og raular, pólitískri hugmyndafræði sem gengur út á að það megi ekki leggja neitt til samrekstrar samfélagsins nema það rúmist innan hagsveiflunnar sem þýðir að það er bara undir hælinn lagt hvort svo sé.

Ég vil að lokum spyrja hv. þingmann hvort við þurfum ekki að halda áfram að kalla hingað inn ráðherrana til þess einmitt (Forseti hringir.) að við þurfum ekki að halda áfram að þreifa okkur áfram í blindni.