146. löggjafarþing — 51. fundur,  30. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[18:13]
Horfa

Einar Brynjólfsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Smára McCarthy fyrir prýðilega ræðu og fyrir prýðilegan texta, tilvitnun. Nú þekki ég ekki frumtextann, en þingmaðurinn efaðist eitthvað um ágæti eigin þýðingar. Mér heyrðist hún vera prýðileg, en ég ætlaði ekki að tala um það hér.

Þingmaðurinn kom inn á það í máli sínu að hugmyndafræði vantaði í þessa fjármálastefnu, þessi fjármálastefna væri í raun engin stefna. Mig langar til að spyrja hv. þingmann aðeins nánar út í það og líka kannski út í þetta margfræga útgjaldaþak sem er ef ég hef skilið rétt nýlunda og komi til síðar meir, var sem sagt ekki upphaflega hugsunin þegar þessi lög voru sett, hver skoðun hans sé á því annars vegar. Og svo hins vegar það sem hann minntist áður á í andsvari í dag að fram fari næstu fimm mánuðina og talaði um að ansi margt væri óljóst enda er það gjarnan þannig með framtíðina, hún er óljós. Hvernig sér hann að kúvendingar í framtíðinni, skyndilegar uppgötvanir, hröð þróun t.d. í átt til sjálfvirkni, kjötræktar o.s.frv., geti komið við íslenska þjóð og fjármálastefnu?