146. löggjafarþing — 51. fundur,  30. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[18:43]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég deili einmitt þessum áhyggjum. Afi minn heitinn var bóndi í sveitum landsins og eitthvað hefði hann nú sagt ef ég hefði stungið upp á því við hann að hann setti sér ákveðið mark á það hve stóran hluta teknanna hann ætlaði að nýta í landbætur, í bústofninn, í fóður, í öll þau útgjöld sem þarf til að reka gott bú, það skipti engu máli hvernig áraði, aldrei skyldi farið upp fyrir það. Ég held að blessaður karlinn hefði klappað mér bara góðlega á kollinn og jafnvel reyndar stungið sykurmola upp í mig, en það er önnur saga.

Þessu útgjaldaþaki sem sett er á var einhvern veginn lætt inn í tillöguna og virtist koma mörgum á óvart. Ég veit að hv. þingmaður tók þátt í umræðum um lögin á sínum tíma. Þetta útgjaldaþak, er það eitthvað sem hv. þingmaður kannast við að hafi verið ætlunin að setja á með nýjum lögum um opinber fjármál?