146. löggjafarþing — 51. fundur,  30. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[18:52]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Lilju Rafneyju Magnúsdóttur fyrir andsvarið. Það er að mínu mati of lítið svigrúm til innviðauppbyggingar. Sérstaklega þegar við sjáum þessi stóru orð sem fram komu í stjórnarsáttmála hæstv. ríkisstjórnar. Ég get ekki séð hvernig koma eigi til móts við og standa við stjórnarsáttmálann miðað við það svigrúm sem hér er. Ég ætlaði að ræða það í ræðu minni hér áðan en það varð útundan því að tíminn var búinn, en það þarf að horfa á gjaldtöku á ferðamenn til að auka tekjur inn í ríkissjóð. Það má líka horfa til breytinga, setja á lýðheilsuskatt og breyta skattkerfinu í samræmi við það sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn lagði til og sérstök nefnd um skattbreytingartillögur — ég man nú ekki nafnið á henni. Það er það sem við hv. þingmenn Framsóknarflokksins ræddum í nýafstaðinni kosningabaráttu.