146. löggjafarþing — 52. fundur,  3. apr. 2017.

beiðni um sérstaka umræðu.

[15:01]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég óskaði í þarsíðustu viku eftir sérstakri umræðu við hæstv. félagsmálaráðherra um fátækt og aðgerðir gegn fátækt. Hæstv. ráðherra tók vel í að eiga þá umræðu. Ég var beðin um að senda inn spurningar af því að til stæði að setja umræðuna á dagskrá í þessari viku en nú fæ ég að heyra að það standi ekki til að setja þessa sérstöku umræðu á dagskrá né heldur nokkrar aðrar sérstakar umræður.

Ég hlýt að furða mig á því, frú forseti, ef það er virkilega þannig að loksins þegar hæstv. ríkisstjórn skilar af sér málum, að sjálfsögðu á síðasta framlagningardegi eins og alltaf hefur verið þrátt fyrir fögur fyrirheit um annað, eigi að ryðja burt öllum öðrum málum eða vill forysta þingsins ekki ræða málefni fátæktar? Þetta er risastórt pólitískt mál, frú forseti, og ég hlýt að furða mig á því ef hvorki á að leyfast að setja þetta mál á dagskrá né aðrar þær sérstöku umræður sem fulltrúar stjórnarandstöðunnar hafa óskað eftir, væntanlega um mikilvæg pólitísk mál, af því að nú loksins þegar ríkisstjórnin hreyfir sig þá liggur svo á að koma málum hennar á dagskrá.

Frú forseti. Ég geri alvarlegar athugasemdir við þetta og krefst þess að gert verði ráð fyrir sérstökum umræðum í þessari viku eins og öðrum vikum. Annað er bara ekki í lagi.