146. löggjafarþing — 52. fundur,  3. apr. 2017.

beiðni um sérstaka umræðu.

[15:06]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Þegar hv. þm. Katrín Jakobsdóttir er beðin um að senda áherslur til skrifstofu þingsins í fyrirhugaðri umræðu á mánudegi við hæstv. félagsmálaráðherra um fátækt þá gerum við ráð fyrir því að það þýði eitthvað. Síðan kemur á daginn að einhliða ákveður hæstv. forseti að hætta við þann undirbúning með það fyrir augum að skapa meira svigrúm í dagskrá vikunnar.

Virðulegi forseti. Þetta hefur á sér það yfirbragð að forsetinn sé í raun og veru að draga taum stjórnarmeirihlutans í því að gæta að því að ekki sé verið að ræða mál sem er óþægilegt fyrir ríkisstjórnina að ræða opinberlega í aðdraganda páskaleyfis, þ.e. þann smánarblett á íslensku samfélagi sem fátækt er. Ég árétta það við virðulegan forseta (Forseti hringir.) að koma þessari umræðu á, annað væri þinginu til skammar.