146. löggjafarþing — 52. fundur,  3. apr. 2017.

beiðni um sérstaka umræðu.

[15:08]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Virðulegi forseti. Ég verð að segja alveg eins og er að mér finnst hæstv. ríkisstjórn og hv. stjórnarmeirihluti ekki fara vel af stað. Kannski bundu einhverjir vonir við það að nú yrðu vinnubrögð hér öðruvísi, í það minnsta hafa margir hv. þingmenn og hæstv. ráðherrar talað þannig áður en þeir settust í ráðherrastólana að nú myndi allt breytast, en viðhorfið gagnvart Alþingi er eiginlega til skammar. Hér er beðið fram á síðustu stundu með að hrúga inn málum og þá skal Alþingi sitja og standa eins og hv. stjórnarmeirihluta þykir rétt að gera. Menn skjóta sér undan því að eiga sérstakar umræður um mál sem snerta okkur öll til þess að hæstv. ríkisstjórn geti komið sínum málum á framfæri. Það er ekki eins og í fjármálaáætluninni sem við erum að fara að ræða núna sé tekið á t.d. þeim stóra vanda sem fátækt er í íslensku samfélagi. Þetta væri kannski skiljanlegt ef þar væri lausnirnar að finna (Forseti hringir.) en það er ekki svo gott og það að geta ekki rætt þetta mál er til skammar.