146. löggjafarþing — 52. fundur,  3. apr. 2017.

beiðni um sérstaka umræðu.

[15:11]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Frú forseti. Það eru vissulega vonbrigði að fá ekki að ræða hér í sérstökum umræðum um viðfangsefnið fátækt á Íslandi því að eins og við vitum er það mál sem hefur verið mjög mikið í umræðunni að undanförnu og tengist beint þeirri fjármálaáætlun sem við ætlum að taka hér fyrir. Ég verð að lýsa yfir miklum vonbrigðum með að við getum ekki fengið að koma okkar sjónarmiðum á framfæri og fáum ekki að heyra sjónarmið hæstv. ríkisstjórnar gagnvart þessum mikilvæga málaflokki meðan mikilvæg umræða á sér stað um fjármálaáætlunina. Þetta er eitthvað sem tengist beint. Það er kannski ekki furða að þetta sé tekið af dagskrá því það er eins og aðrir hv. þingmenn hafa komið hér inn á eflaust mjög óþægilegt fyrir ríkisstjórnina að ræða um fátækt þegar svo fátæklega er að þeim málaflokki staðið í fjármálaáætlun. Mögulega vill hún ekki að það komi algerlega skýrt fram í þessum umræðum.