146. löggjafarþing — 52. fundur,  3. apr. 2017.

beiðni um sérstaka umræðu.

[15:12]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég held að hv. þingmenn verði að sýna hæstv. forseta nokkra sanngirni í þessum málum. Ég hygg að aldrei á neinu tveggja mánaða tímabili í störfum þingsins hafi sérstakar umræður verið jafn tíðar og undanfarna tvo mánuði. Ég held að það sé leitun að því að þingmenn hafi átt jafn greiða leið með að koma sjónarmiðum sínum á framfæri í þeim farvegi sem sérstakar umræður eru. Ég hygg líka að hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar þurfi ekki að kvarta yfir að hafa ekki fengið tíma til að tala hér í þinginu. Þeir hafa fengið afar rúman tíma til þess að tala um þau mál sem þeim hugnast. Það hefur áhrif á dagskrá þingsins. Það hefur t.d. gert það að verkum að það er meira um að vera í þessari viku en kannski verið hefði ef menn hefðu aðeins stillt sig betur í umræðu í síðustu viku. [Hlátur í þingsal.]