146. löggjafarþing — 52. fundur,  3. apr. 2017.

beiðni um sérstaka umræðu.

[15:21]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Frú forseti. Ég er farin að taka eftir ákveðnu trendi hjá hv. þingmönnum stjórnarmeirihlutans, þá sérstaklega hv. þingmanna Sjálfstæðisflokksins sem sussa á okkur þingmenn minni hlutans og segja okkur að stilla orð okkar, stilla okkur um að segja hluti vegna þeirra eigin slælegu vinnubragða. Dæmi um þetta mátti finna í orðum hv. þm. Brynjars Níelssonar sem hafði í hendi sér að taka skýrsluna um einkavæðingu Búnaðarbankans inn í sína nefnd og vinna hana þar áður en hún færi í umræðu þingsins en kaus þess í stað að biðja okkur um að stilla okkur um nokkrar yfirlýsingar þar sem við hefðum ekki fengið nægan tíma til að kynna okkur málin. Hann hafði í hendi sér að gefa okkur þann tíma. Sömuleiðis bera orð hv. þm. Birgis Ármannssonar vitni um þetta þegar hann biður okkur um að stilla okkur því að hæstv. ríkisstjórn hans hefur ekki haft fyrir því að vinna vinnuna sína hingað til og nú skulum við stilla okkur um að vera ósátt við að fá hér í einni runu helling af málum.