146. löggjafarþing — 52. fundur,  3. apr. 2017.

beiðni um sérstaka umræðu.

[15:23]
Horfa

dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S):

Virðulegi forseti. Ég get ekki látið hjá líða að taka þátt í þessu uppistandi sem hér á sér stað og bregðast við orðum sem beint var til mín af hv. þm. Birni Leví Gunnarssyni og varða fyrirspurn sem hefur legið á mínu borði í nokkra daga. Ég get upplýst hv. þingmann um að mér er það þvert um skap að hafa ekki fengið tækifæri til að taka það mál á dagskrá og eiga uppbyggilegt samtal við hv. þingmann um kosningalöggjöfina sem ég tel mikilvægt að fari hér fram áður en og ef kosningalöggjöfin verður tekin til endurskoðunar og breytt að einhverju leyti. Hv. þingmaður nefndi sérstaklega sjálfur að hér hefðu liðið þrír mánudagar frá því að þessi fyrirspurn kom fram. Það er nú rétt. En ég verð að segja að mér finnst það nú óþarflega mikil viðkvæmni af hálfu hv. þingmanns að hún hafi ekki farið á dagskrá á þessum stutta tíma. En ég hef ekki neitt annað í hyggju en að ræða þessi mál svo fljótt sem verða má. (Forseti hringir.) Hv. þingmenn verða að taka tillit til dagskrár og annarra hv. þingmanna þegar kemur að samræðum hér í þingsal.