146. löggjafarþing — 52. fundur,  3. apr. 2017.

beiðni um sérstaka umræðu.

[15:27]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg):

Frú forseti. Ég öfunda forseta ekki af því að þurfa að skipuleggja störfin hér þegar ríkisstjórnin kemur með mál á síðasta skiladegi eftir að hafa verið með tóma dagskrá vikum saman. Mig langar að nefna eitt konkret dæmi um það hvernig vinnubrögð í Stjórnarráðinu eru. Hæstv. ráðherra situr hér og lýsir því yfir við Björn Leví Gunnarsson að hún sé öll boðin og búin að bæta úr vinnubrögðum í ráðuneytinu. Ég er hér með fyrirspurn um aðgerðaáætlun um mansal sem upphaflega var lögð fram 21. desember, endurflutt 24. janúar og því var frestað til 13. febrúar að koma svari til þingsins. Nú barst bréf 9. febrúar þar sem beðið var um frest til 6. mars til að skila þessari fyrirspurn inn. Í dag er 3. apríl. Þessi fyrirspurn, sem menn hafa 15 virka daga til að skila til þingsins, hefur verið að dóla í kerfinu tvo og hálfan til þrjá og hálfan mánuð (Forseti hringir.) eftir því hvaða dag maður miðar við. Er það nema von að maður sé dálítið hissa á þessari ríkisstjórn?