146. löggjafarþing — 52. fundur,  3. apr. 2017.

peningamálastefna.

[15:51]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Benedikt Jóhannesson) (V):

Frú forseti. Það er einkennilegt að heyra hv. þingmann gera því skóna að menn eigi að hætta að hafa skoðanir um leið og þeir eru komnir í ríkisstjórn. Auðvitað hef ég áfram mínar skoðanir. Ég hef sömu skoðun núna og ég hafði fyrir kosningar. Ég hef ekki dregið neina dul á það. Ég hef talið að það væri farsælla fyrir Ísland að hafa aðra peningastefnu, hafa stefnu þar sem væri meira jafnvægi. Ég hef talið að það væri ekki farsælt fyrir útflutningsgreinarnar að vera með gjaldmiðil þar sem evran er á 160 kr. einn daginn, 140 kr. þann næsta og svo komin niður í 112 kr., fer svo upp í 124 kr. og sveiflast fram og til baka, þannig að þeir sem eiga viðskipti í þessari mynt vita aldrei daginn eftir hve mikið þeir fá fyrir sinn snúð. Ég geri enga athugasemd við það að aðrir kunni að hafa aðrar skoðanir á því. Þannig er lýðræðið. Þannig verða skoðanaskipti.

Verkefnastjórn um umgjörð peningastefnunnar fær vissulega ákveðnar leiðbeiningar. Meginleiðbeiningarnar eru þær sem koma fram í stjórnarsáttmálanum, þ.e. að við ætlum að skapa peningastefnu þar sem gengi íslensku krónunnar er stöðugra. Það getur vel verið að hv. þingmaður sé á móti slíkri stefnu, en þetta er stefna ríkisstjórnarinnar, þetta er sú stefna sem við höfum náð saman um. Ég skammast mín ekki fyrir hana. Ég er mjög hreykinn af henni.