146. löggjafarþing — 52. fundur,  3. apr. 2017.

peningamál og sala Arion banka.

[15:56]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Virðulegur forseti. Ég verð að halda áfram á sömu slóðum því að engin svör eru komin frá hæstv. fjármálaráðherra. Það getur vel verið að ráðherrann hafi lent í því að ekki hafi verið haft rétt eftir honum eða ólíkur skilningur hafi verið á umræðuefninu í viðtalinu. Það er ekki hægt að setja út á slíkt, slíkt getur hent. En er það sem sagt niðurstaða, virðulegur forseti, hæstv. ráðherra að megininntakið, fyrirsögnin, umfjöllunarefni viðtalsins, hafi einfaldlega verið rangt, að í öllum megindráttum hafi rangt verið haft eftir hæstv. ráðherra? Er hann sem sagt ekki þeirrar skoðunar, sem lýst er í viðtalinu, að óforsvaranlegt sé að hafa fljótandi krónu til langframa? Það er afskaplega undarleg afstaða, eins og mátti reyndar skilja á blaðamanni sem skrifaði viðtalið, að nokkrum dögum eftir að búið er að fleyta krónunni komi fjármálaráðherra landsins og lýsi því yfir að hún geti ekki flotið lengi. Þetta er í raun eins og að taka skip í slipp, gera við það og þegar það er sjósett aftur lýsa því þá yfir að það geti varla flotið lengi, þetta skip. Það væri ekki til þess fallið að fá farþega eða starfsmenn á skipið.

Virðulegur forseti. Ég ítreka því spurningu mína: Var þetta allt saman rangt eftir haft? Eftir ágæta yfirferð hv. þm. Loga Einarssonar hér áðan kom fram í svari hæstv. fjármálaráðherra að ríkisstjórnin væri sammála um ýmislegt þó að hún væri ósammála um margt — en mér dettur bara ekkert í hug. Um hvað er þessi ríkisstjórn sammála? [Hlátur í þingsal.] Er það kannski helst það að hún sé sammála um að rétt sé að erlendir vogunarsjóðir selji sjálfum sér Arion banka? Því bæti ég við fyrri spurningar, hæstv. forseti: Er hæstv. fjármálaráðherra ekki þeirrar skoðunar að ef á daginn hefur komið, eins og lítur út fyrir, að vogunarsjóðir hafi selt sjálfum sér Arion banka á verði sem er undir því verði sem heimilar ríkinu að grípa inn í, finnst þá ekki hæstv. ráðherra að ríkið eiga að gera það og nýta forkaupsrétt sinn á bankanum?