146. löggjafarþing — 52. fundur,  3. apr. 2017.

peningamál og sala Arion banka.

[16:00]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Virðulegur forseti. Mér fannst ræða hæstv. ráðherra hér áðan eitthvað kunnugleg. Ég hef nefnilega einu sinni áður heyrt nákvæmlega sömu röksemdafærslu og það var hjá Erich Honecker, leiðtoga Austur-Þýskalands, þegar hann útskýrði að það væri algjörlega óviðunandi að gjaldmiðillinn, austur-þýska markið, flyti upp og niður, menn vissu ekkert hvers virði það yrði næstu daga. Þess vegna þyrftu menn að hafa ákveðnar reglur um það hvert gengi þess gjaldmiðils ætti að vera. Ég held að hæstv. ráðherra sé nógu fróður um söguna til þess að vita hvernig það fyrirkomulag virkaði. Það að heyra hér formann flokks, sem hefur verið talinn hægri flokkur, einhvers konar frjálslyndur hægri flokkur, boða austur-þýsku stefnuna í peningamálum kemur mér vægast sagt í opna skjöldu.

Virðulegur forseti. Varðandi Arion banka. Það lágu fyrir ákveðnar reglur um það hvernig menn skyldu haga sér í því að skila til ríkisins þeim verðmætum sem í bankanum lágu. Það er einfaldlega verið að fara á svig við þær reglur. Finnst hæstv. ráðherra það ásættanlegt? Eða hyggst hann grípa þar inn í?