146. löggjafarþing — 52. fundur,  3. apr. 2017.

lífræn ræktun.

253. mál
[16:14]
Horfa

Gunnar Ingiberg Guðmundsson (P):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Svandísi Svavarsdóttur fyrir fyrirspurnina. Ég tel einmitt að þessi málaflokkur sé í ólestri, landbúnaðarkerfið eins og það er uppsett í dag er letjandi fyrir vöruþróun. Því til rökstuðnings er hægt að nefna að nánast öll slátrun er miðlæg, þ.e. stórar verksmiðjur. Ekki er hægt að treysta því að sama kjöt og er farið með til slátrunar skili sér aftur til þess sem lagði það til slátrunar. Ein afleiðing af þessu er að upprunamerkingar eru óáreiðanlegar, kjöt sem er ekki upprunamerkt getur ekki flokkast til lífrænnar ræktunar. Einnig eru miklar hömlur á því að bændur geti slátrað sjálfir til endursölu. Til mikilla trafala í þeim efnum er að förgun hættulegra vefja er á of fáum stöðum á landinu.

Því spyr ég hæstv. ráðherra hvort henni hugnist að greiða fyrir leið til heimaslátrunar og stuðla með því að sjálfstæði bænda og nýsköpun í greininni.