146. löggjafarþing — 52. fundur,  3. apr. 2017.

umhverfisáhrif og sjálfbærni byggingariðnaðar.

279. mál
[16:35]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Björt Ólafsdóttir) (Bf):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka fyrir umræðuna. Hún hefur verið mjög fróðleg og jákvæð. Ég held að við séum meira og minna sammála. Ég tók sérstaklega með mér úr umræðunni það sem nefnt var um viðhald bygginga. Ég velti fyrir mér þegar ég sit hér, af því að það er alveg rétt hjá hv. fyrirspyrjanda að ég hef sérstakan áhuga á því, hvernig við getum notað græna hvata til þess að liðka fyrir grænni hegðun, ef svo má segja, eða ýta undir hana. Ég held að það sé almennt þannig að við erum ekkert nógu góð í því að halda við byggingum og förum í að rífa þær þegar það er orðið um seinan jafnvel, fólki finnst ekki borga sig að endurgera heldur er húsnæðið rifið. Það gengur ekki upp. Það „meikar engan sens“, ef ég má sletta.

Ég velti fyrir mér einhverjum svoleiðis hvötum inn í regluverk. Það er eitthvað sem ég er að hugsa upphátt. Ég tek líka undir það sem kom fram hjá hv. þm. og arkitekt, Loga Einarssyni, að gæðin felast í því að rými nýtist vel, ekki endilega í því að byggja stærra og eiginlega alls ekki, þá þarf maður bara að taka meira til. Gæðin eru í haganlega hönnuðu rými. Það er oft jafnvel betra að rýmið sé minna, ég tala af reynslu. Ég tek með mér þær fjölmörgu góðu ábendingar sem hafa komið fram í umræðunni og þakka fyrir hana.