146. löggjafarþing — 52. fundur,  3. apr. 2017.

búsetuskerðingar almannatrygginga.

311. mál
[16:50]
Horfa

félags- og jafnréttismálaráðherra (Þorsteinn Víglundsson) (V):

Frú forseti. Varðandi réttindaávinnsluna er vissulega rétt, eins og hv. þingmaður bendir á, að þarna er verið að takmarka við 40 ára réttindaávinnslu. Það verður auðvitað að gera ráð fyrir því að þegar við flytjum til útlanda tímabundið til atvinnu séum við að ávinna okkur einhver réttindi í viðkomandi ríki og nýta okkur þau á móti þeim réttindum sem við eigum þegar hér fyrir, þess vegna er gert ráð fyrir því að réttindaávinnslan sé í sjálfu sér réttindaávinnsla á nokkuð eðlilegri starfsævi. Svo erum við með áframhaldandi réttindaávinnslu innan örorkukerfisins þegar það á við, þ.e. fyrir þann hóp sem lendir í þeirri stöðu. Þetta er að sjálfsögðu mikilvægt að hafa í huga.

Ég vil fyrst og fremst fagna þessari umræðu. Ég hef ekki áhyggjur af því að umræðan um réttindi þessa hóps verði olnbogabarn í þeirri vinnu sem fram undan er varðandi almannatryggingar og örorkulífeyriskerfið okkar. Það er afskaplega brýnt að við horfum til þessa. Við erum með mjög vaxandi hóp erlendra ríkisborgara sem hingað hefur flutt, skilar mjög miklu inn í þjóðarbúið og við sjáum í alla staði að skiptir okkur alveg gríðarlega miklu máli. Við þurfum að hlúa að réttindum þessa hóps. Sannarlega viljum við ekki að almannatryggingakerfið okkar mismuni á einhvern hátt eða búi svo um hnúta að fólk búi við sára fátækt eftir að hafa starfað hér og unnið, einfaldlega vegna þess að það býr við afskaplega takmarkaðan rétt frá heimalöndum sínum af hverjum þeim ástæðum sem þær kunna að vera. Ég get fullvissað hv. þingmann um að við munum halda fullri áherslu á þetta mikilvæga mál við endurskoðun almannatrygginga.