146. löggjafarþing — 52. fundur,  3. apr. 2017.

stefna um uppbyggingu flutningskerfis raforku.

227. mál
[17:11]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni kærlega fyrir að leggja fram þessa fyrirspurn og fyrir að vekja athygli á málefnum flutningskerfis raforku. Það er held ég alveg rétt hjá hv. þingmanni og mér heyrist á öllu að við séum að því leyti sammála að vel sé hægt að vinna með það samtal og ræða þessi mál þannig að gagn sé að.

Varðandi fyrri spurninguna þá er á vegum ráðuneytisins unnið að gerð tillögu til þingsályktunar um stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku. Sú vinna er í samræmi við þær breytingar sem gerðar voru á raforkulögum í júní 2015 þar sem samkvæmt breytingartillögum frá meiri hluta atvinnuveganefndar Alþingis var ákvæði bætt við raforkulögin þess efnis að ráðherra skuli, eins og hv. þingmaður kom inn á, leggja á fjögurra ára fresti fram á Alþingi tillögu til þingsályktunar um stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku.

Í ákvæði til bráðabirgða við umrædd breytingalög kom fram að slík tillaga til þingsályktunar um stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku skyldi fyrst lögð fyrir Alþingi eigi síðar en 15. október 2016. Eins og við munum var á þeim tíma undirbúningur fyrir kosningar og m.a. vegna þeirra reyndist ekki unnt að ná því að leggja slíka tillögu til þingsályktunar fram innan þess tímaramma sem lögin vissulega gera ráð fyrir. En nú er sem sagt unnið að gerð tillögunnar. Ráðgert er að drög að henni verði lögð fram til kynningar og í opið samráðsferli á heimasíðu ráðuneytisins á næstu vikum, vonandi í síðasta lagi í lok apríl.

Eins og fram kemur í fyrrnefndu nefndaráliti meiri hluta atvinnuveganefndar frá mars 2015 þá er miðað við að hluti stefnunnar verði meginreglur og viðmið varðandi jarðstrengi eða loftlínur, en einnig önnur atriði sem lúta með almennum hætti að flutningskerfi raforku og hvernig standa skuli að uppbyggingu þess til lengri tíma. Ég er sammála hv. þingmanni um það að mikilvægt er að pólitíkin, bæði framkvæmdarvald og þingið, leggi línur í þessu en láti þetta ekki allt liggja hjá Landsneti.

Í samræmi við þetta mun því tillaga til þingsályktunar um stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku að hluta byggja á þeirri þingsályktun sem samþykkt var á Alþingi 28. maí 2015 um stefnu stjórnvalda um lagningu raflína. Því til viðbótar mun hún einnig fela í sér aðrar stefnumótandi áherslur um uppbyggingu flutningskerfis raforku. Ég tel mikilvægt að vel takist til við þessa stefnumótun og við vöndum til verka. Með slíkri þingsályktunartillögu getur Alþingi lagt fram ákveðnar áherslur og meginreglur sem taka ber mið af við uppbyggingu flutningskerfis og við gerð kerfisáætlunar. Mikilvægt er að Alþingi hafi með þessum hætti aðkomu að framtíðarsýn innan þessa málaflokks.

Sú áskorun sem blasir við okkur er að reyna að ná fram eins mikilli sátt og unnt er um þá mikilvægu innviði sem felast í flutningskerfi raforku. Í því skyni horfum við jafnt til efnahagslegra, samfélagslegra og umhverfislegra sjónarmiða. Sáttin til lengri tíma felst í eðlilegu jafnvægi milli þessara þriggja stoða sjálfbærrar þróunar.

Við höfum því ákveðið tækifæri núna til þess að taka ábyrga og upplýsta umræðu um mikilvægi þessara innviða og vinna að stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfisins. Opið samráð og samvinna skipta hér sköpum. Ég mun hafa það að leiðarljósi í þessari vinnu.

Drög að þingsályktunartillögunni verða sem áður segir lögð fram til kynningar og umsagnar á næstu vikum. Í framhaldi af því verður farið vel yfir þær ábendingar og athugasemdir sem berast og tekið tillit til þeirra. Í kjölfar þess verður þingsályktunartillaga um stefnu uppbyggingar flutningskerfis raforku lögð fyrir Alþingi.

Til að svara fyrri hluta spurningarinnar beint þá tel ég raunhæft að þingsályktunartillagan verði að loknu hinu opna samráðsferli lögð fram á Alþingi annaðhvort í lok yfirstandandi vorþings sem er nú kannski hæpið eða í byrjun komandi haustþings. Miðað við allt myndi ég nú ætla að það yrði fremur í haust.

Varðandi orkunýtingaráætlun sem hv. þingmaður kom inn þá er því fyrst til að svara að við erum auðvitað þegar með ákveðna orkunýtingaráætlun í gegnum rammaáætlun samanber heiti hennar, tillaga um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða. Upphaflegt markmið um rammaáætlun var að hún væri að jöfnu verndaráætlun og orkunýtingaráætlun. Því megum við ekki gleyma í umræðunni um rammaáætlun.

Varðandi orkunýtingarstefnu sem spurt er um þá er svarið við því að slík opinber stefna er ekki til. Ég tel ýmis rök vera fyrir því að unnið verði að formlegri orkustefnu fyrir Íslands, hef ég það til skoðunar í ráðuneytinu. Slíkri stefnu væri ætlað að setja fram ákveðna langtímasýn í orkumálum okkar Íslendinga og hvaða áherslur við ætlum að hafa þar að leiðarljósi.

Ég tel að almennt ríki samstaða um þau meginsjónarmið sem myndu koma fram í slíkri orkustefnu, almennar áherslur okkar í orkumálum er aukið (Forseti hringir.) hlutfall endurnýjanlegra orkugjafa o.s.frv.

Ég er ekki alveg búin hérna, ég ætla að fá að koma betur inn á orkustefnu ef einhver er búinn að biðja um orðið, sem ég held að sé.