146. löggjafarþing — 52. fundur,  3. apr. 2017.

stefna um uppbyggingu flutningskerfis raforku.

227. mál
[17:19]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Kolbeinn Óttarsson Proppé) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka öllum sem tóku þátt í þessari umræðu og hæstv. ráðherra fyrir greinargóð svör. Bitte nú, segi ég bara, að það sé að koma fram langþráð áætlun um uppbyggingu flutningskerfis raforku. En aðeins hvað varðar seinni spurninguna sem hæstv. ráðherra fór yfir þá fór hv. þm. Ari Trausti Guðmundsson ágætlega yfir þessar skilgreiningar á hugtökum. Það er akkúrat það sem ég kom inn á, það sem ég horfi á sem orkunýtingarstefnu er ekki það hvar við getum virkjað orku, hvar við getum framleitt orku. Þar höfum við sett okkur einhvers konar áætlun í rammaáætlun sem heitir því miður þessu villandi nafni um vernd og orkunýtingu landsvæða. Það finnst mér bera keim af gamaldags hugsunarfræði þegar kemur að þessum málum, að í raun og veru sé fallvatn eða jarðvarmi sem ekki sé virkjaður ónýttur, það sé orka sem er ónýtt og í raun og veru sé í lagi bara að virkja óháð því hvað eigi svo að gera við orkuna, það sé seinni tíma úrlausnarefni.

Við höfum rætt í þingsal á þeim örfáu mánuðum sem liðnir eru af þessu kjörtímabili um loftslagsmarkmiðin og skýrslu í loftslagsmálum. Við höfum rætt um orkuskipti í samgöngum. Rammann hefur borið hér á góma og fleiri og fleiri mál sem öll tengjast þessu stóra máli. Það er það sem ég hef verið að kalla eftir í máli mínu og myndi óska eftir að ráðherra kæmi örlítið inn á í lokaorðum sínum, þ.e. þessi stefna eins og kemur fram í seinni hluta spurningar minnar sem ég veit að ráðherra var bara ekki komin nógu langt til að svara með, þ.e. áform um hve stórum hluta orkunnar skuli varið (Forseti hringir.) til orkuskipta í samgöngum, til heimila, til lítilla og meðalstórra notenda og til stórnotenda o.s.frv. Hér mætti bæta við grænum atvinnuháttum og fleiru slíku.