146. löggjafarþing — 53. fundur,  3. apr. 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[17:39]
Horfa

Frsm. 4. minni hluta fjárln. (Silja Dögg Gunnarsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég tek nú til máls í annað sinn í þessari umræðu um fjármálastefnu og ætla kannski ekki að hafa mörg orð um hana. Mig langar þó að segja að þessi umræða hefur verið mjög áhugaverð. Ekki bara fyrir ykkur sem á hlýðið heldur okkur sem hér erum og tökum þátt í henni. Við erum, eins og fleiri hafa nefnt, að fást við nýja aðferð til að vinna að ríkisfjármálum, fjárlögum. Við vinnum samkvæmt nýjum lögum um opinber fjármál sem voru samþykkt í fyrra. Fjármálastefnan er einn liður af þeim ramma sem við erum að reyna að vinna samkvæmt til að ná fram betri aga í fjármálum og aðhaldi til lengri tíma. Við setjum okkur ramma til fimm ára sem við teljum vera mjög framsýnt. Við tölum um langtímaáætlun þótt aðrar þjóðir myndu kannski andmæla því og segja að fimm ár séu ekkert sérstaklega langur tími. En við erum að feta okkar fyrstu skref. Einhvers staðar verðum við að byrja. Ég heyrði sagt einhvers staðar að þegar Svíar tóku þetta vinnulag upp hefðu þeir tekið sér tíu ár í að innleiða það. Við erum að vinna þessa hluti mjög hratt. Það er mjög krefjandi fyrir þingmenn að þurfa að setja sig inn í nýja hugsun á svo skömmum tíma. Ég geri ráð fyrir að við eigum eftir að slípa þessa aðferðafræði til og skerpa á þeim vinnuaðferðum sem við notum til að ná þessum praktísku markmiðum sem við þurfum að hafa. En við erum öll af vilja gerð og reynum að gera okkar besta. Þetta er áskorun.

Hvað varðar þessa margumræddu fjármálastefnu vil ég ítreka það sem ég hef sagt áður í umræðum. Við í þingflokki Framsóknarflokksins höfum gagnrýnt hana fyrir að vera óraunsæja hvað varðar sveitarfélögin til dæmis. Í fjármálastefnunni er gengið út frá því að sveitarfélögin nái að standa við afkomumarkmið, þ.e. nái að greiða niður skuldir, sem er ansi langsótt að mínu mati, sérstaklega í ljósi þess að mörg sveitarfélög eru enn frekar illa stödd fjárhagslega. Ég tala til dæmis fyrir sveitarfélagið mitt, Reykjanesbæ. Það sveitarfélag er að ná sér út úr skuldum, vinnur að því og gengur ágætlega. En á sama tíma er gríðarleg fólksfjölgun í sveitarfélaginu sem þýðir auknar kröfur um uppbyggingu innviða og auknar fjárfestingar. Hvernig á slíkt sveitarfélag að mæta á sama tíma þessum kröfum um afkomumarkmið? Þetta er ekki hægt.

Þar fær ríkisstjórnin falleinkunn, að ganga út frá því að þetta sé gerlegt. Annað sem félagar mínir hafa nefnt í fyrri ræðum, og ég vil undirstrika líka, er sá ómöguleiki að ætla að greiða niður skuldir svo hratt sem áætlanir gera ráð fyrir á sama tíma og þessi mikla þörf er fyrir innviðauppbyggingu. Hvernig er hægt að lofa innviðauppbyggingu á sama tíma og menn ætla að greiða niður skuldir á slíkum hraða? Við í þingflokki Framsóknarflokks höfum lagt til að það sé nauðsynlegt að greiða niður skuldir — við erum að greiða mjög há vaxtagjöld árlega — en við þyrftum kannski að trappa okkur niður í að minnsta kosti nokkur ár meðan við erum að ná okkur á strik í innviðauppbyggingu. Við höfum nefnt samgöngur, heilbrigðiskerfi og menntakerfi sem er mjög aðkallandi. Við erum öll sammála um það.

Framsetningu er verulega ábótavant. Ég vil líka undirstrika það sem hv. þm. Björn Leví Gunnarsson nefndi hér áðan. Þar er til dæmis ekkert yfirlit yfir þróun eigna eins og krafist er í lögum. Ekkert um fjárfestingarstefnu sem er alls ekki nógu gott og alls ekki til þess gert að skapa traust og öðlast langtímayfirsýn sem er tilgangur laganna. Þetta er gagnrýnisvert.

Við Framsóknarmenn höfum talað fyrir því að nauðsyn sé á að skoða álagningu nýrra skatta, svo sem lýðheilsuskatts, komugjalds og fleiri möguleika sem að mínu mati verða að vera uppi á borðum í stóra samhenginu. Það er ekki hægt að segja: Við ætlum að greiða niður skuldir ríkisins, fara í stórfellda innviðauppbyggingu en ekki að bæta við neinum sköttum. Það bara gengur ekki upp. Þetta er gagnrýnisvert.

En að síðustu — ég lofaði að tala ekki lengi — er það tvennt í viðbót og það varðar bankana. Hæstv. fjármálaráðherra hefur verið margspurður að því hvað hann hyggist fyrir varðandi sölu bankanna þar sem við erum að samþykkja stefnu til fimm ára. Það hefur gríðarleg áhrif á ríkissjóð ef af sölu bankanna verður. Svör hans hafa enn sem komið er ekki verið nægilega skýr að mínu mati. Ég vil ítreka að Alþingi þarf að fá skýr svör um næstu skref við sölu bankanna og hvort það sé þá hugsað til næstu tveggja, þriggja ára á þessu kjörtímabili eða alls ekki. Og þegar þar að kemur, því að ég geri ráð fyrir að það verði að veruleika á einhverjum tímapunkti, verði það gert í samfélagslegri sátt. Það þarf að fara fram ítarlegri umræða í samfélaginu, ekki bara á Alþingi heldur um allt samfélagið, um það hvernig við ætlum að standa að þessari bankasölu. Ferlið verður að vera gegnsætt og þetta er bara lítill partur af því verkefni sem við stöndum nú frammi fyrir, þ.e. endurskoðun á fjármálakerfinu í heild sinni. Hvernig viljum við hafa það? Því að í kjölfar hrunsins varð hér mikil ólga og vantraust, ekki bara á fjármálakerfið heldur á Alþingi og allt þetta. Við þurfum hægt og bítandi að vinna okkur út úr þessu. Þetta tekur tíma, þetta tekur meira en átta ár; vonandi sem stystan tíma en þetta þarf að eiga sér stað. Og við hér á Alþingi höfum ríka skyldu hvað það varðar að leiða þessa umræðu og draga fram þau svör sem þarf að draga fram til að ná sátt sem er svo mikilvæg fyrir okkur öll.

Nú erum við að tala um þensluáhrif framkvæmda. Ekki er hægt að byggja göng þarna, ekki hægt að byggja nýja brú þótt það sé brýnt samfélagslega séð því að það gæti skapað þenslu og þá fer allt fjandans til. Það viljum við ekki, við viljum halda niðri verðbólgunni. Þetta þekkjum við öll. En á sama tíma og ríkisstjórnin, eins og birtist líka í fjármálaáætluninni, mun halda áfram miklu aðhaldi í opinberum framkvæmdum til að ná markmiðum sínum leika fyrirtæki lausum hala, má segja, hvað varðar framkvæmdir. Það er mjög þensluhvetjandi, hlýtur að vera, fyrir samfélagið í heild sinni þegar fyrirtæki eins og Isavia er að framkvæma fyrir marga milljarða. Mér finnst að við þurfum að horfa á allar hliðar. Þetta á ekki að vera eins og ríki í ríkinu. Það hlýtur að þurfa að taka slíkt inn í jöfnuna og horfa á það í samhengi við aðra hluti. Mér finnst þetta hálfstjórnlaust enn sem komið er og vona að ráðherra og við hér tökum þetta til gaumgæfilegrar skoðunar og umræðu næstu vikur og mánuði.

Að lokum tel ég mjög mikilvægt varðandi framkvæmdir á vegum ríkisins að ekki verði eingöngu horft í arðsemisforsendur, að excel-skjölin verði ekki eingöngu heilagur sannleikur, heldur verði líka tekið mið af þjóðhagslegri arðsemi, samfélagslegum þáttum og fleiru sem er mjög mikilvægt þegar verið er að forgangsraða verkefnum á vegum ríkisins.

Annars þakka ég góða umræðu og vona að okkur auðnist að standa undir nafni og koma vinnulagi við ríkisfjármálin í gott horf. En þjóð, þið verðið að gefa okkur smátíma.