146. löggjafarþing — 53. fundur,  3. apr. 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[18:04]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Svörin sem minni hluti fjárlaganefndar fékk við þeim fyrirspurnum voru þau að meiri hlutinn sæi fram á breytingartillögur og ég bjóst við að það væri í samvinnu við fjárlaga- og efnahagsráðuneytið. Hvað varðar arðgreiðslurnar og samkeppnisstöðu bankanna þá ber ríkið þó nokkuð mikla ábyrgð á því samkeppnisumhverfi þar sem það á stóran hluta af bankakerfinu. Í þeirri aðstöðu rennur allt umfram þá lækkun á eigin fé, allur arður umfram það, til skuldaniðurgreiðslu samfélagsins. Það má alveg túlka það sem óbeina skatta. Það finnst mér athugavert, og við þyrftum að vera heiðarleg gagnvart því.

Síðan var ansi mikil umræða um vinnulagið, þ.e. hvernig við eigum að tala um fjármálastefnuna. Nú er þetta nýtt hér á þingi. Hvað er eðlilegt að tala um? Grófur rammi er settur fram í lögum um opinber fjármál um það hvað fjármálastefnan eigi að innihalda. Efnislega er hún ekkert rosalega ágripsmikil, hvað það varðar hvernig við getum rætt um það sem hún síðan kemur til með að innihalda. Að lokum kemur hún til með að hafa áhrif á þau fjárlög sem við setjum og því tel ég óhjákvæmilegt að við tölum um þau málefni sem við fjöllum um og setjum í fjárlög. Ég vildi bara spyrja um álit hæstv. fjármálaráðherra á því hvort það ætti ekki að vera eitthvað sem við ættum að setja okkur sem ákveðið vinnulag sem þing og framkvæmdarvald.