146. löggjafarþing — 53. fundur,  3. apr. 2017.

fullgilding fríverslunarsamnings milli EFTA-ríkjanna og Georgíu.

177. mál
[18:17]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg):

Frú forseti. Við erum hér í síðari umræðu um fullgildingu fríverslunarsamnings milli EFTA-ríkjanna og Georgíu. Ég vil fagna því að ábendingar okkar í minni hlutanum um að þar sé áréttuð skuldbinding samningsríkjanna um að styðja við lýðræði réttarreglur, mannréttindi og mannfrelsi í samræmi við skyldur sínar að þjóðarrétti, eins og kemur m.a. fram í sáttmála Sameinuðu þjóðanna og mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna, fengu hljómgrunn og vil fagna því að það var einhugur í nefndinni um að koma þessari brýningu á framfæri í nefndarálitinu. Ég tek undir það sem hv. þm. Steinunn Þóra Árnadóttir nefndi áðan um að sjálfbær þróun á að sjálfsögð að vera útfærð nánar í þeim fríverslunarsamningum sem Ísland er að fullgilda hér nánast á færibandi.

Fríverslunarsamningar eru afar mikilvægur þáttur í utanríkisviðskiptum Íslands og þar með í utanríkisstefnu okkar. Þar er auðvitað fyrirferðarmestur og mikilvægastur EES-samningurinn. Eins og flestir vita eru fríverslunarsamningar gerðir af íslenskum stjórnvöldum í viðskiptalegum og efnahagslegum tilgangi við ríki til að bæta aðgang íslenskra fyrirtækja að viðkomandi mörkuðum til að draga úr eða afnema viðskiptahindranir og tryggja samkeppnisstöðu íslensks atvinnulífs til lengri tíma.

Aukin viðskipti fela líka í sér auknar skyldur. Fram hjá þeim getum við ekki horft. Í fyrri umræðunni um fríverslunarsamning milli EFTA-ríkjanna og Georgíu spurði ég hæstv. utanríkisráðherra um hvernig aðildarríkin að þessum fríverslunarsamningi við Georgíu muni nákvæmlega stuðla að og styðja við lýðræði, réttarreglur og mannfrelsi eins og áréttað er í formálsorðum samningsins. Ástæðan fyrir því að ég spurði hæstv. ráðherra um þetta er sú staðreynd að í Georgíu eiga sér stað mannréttindabrot. Það er útbreiddar pyndingar á borgurunum af hálfu yfirvalda sem aldrei hafa verið rannsakaðar. Í febrúar sl. gaf sérstakur ráðgjafi Sameinuðu þjóðanna út mjög svarta skýrslu um alvarlega hátt hlutfall í Georgíu varðandi ofbeldi gegn konum. Eins er hægt að vitna í nýútkomna skýrslu frá Human Rights Watch mannréttindasamtökunum sem draga upp mjög dökka mynd af málum þegar kemur að mannréttindum og mannréttindabrotum í þessu landi sem við erum að fullgilda fríverslunarsamning við.

Þegar EFTA-ríkin skuldbinda sig í samningum, viðskiptasamningum, um að styðja við lýðræði, réttarreglur, mannréttindi og mannfrelsi í samræmi við skyldur sínar að þjóðarétti finnst mér það nánast ótækt að í viðkomandi samningum sé ekki skýrara svigrúm til þess að draga í land og hætta við samninginn þegar ákveðin mannréttindabrot eiga sér stað.

Hæstv. utanríkisráðherra svaraði hér í þingsal í fyrri umræðunni um fullgildingu samningsins spurningu minni um hvernig hann nákvæmlega ætlaði sér að beita sér fyrir því að mannréttindi og réttindi borgaranna yrðu virt í gegnum þennan ágæta samning á þann veg að hann sæi fyrir sér að Íslendingar gætu sýnt gott fordæmi þegar kemur að því hvernig Ísland getur stigið inn í fríverslunarsamning af þessu tagi, eins og ég túlka orð hans, með það að leiðarljósi að fordæma mannréttindabrot. Svo sagðist hann ætla að tala sjálfur fyrir virðingu fyrir mannréttindum.

Þetta er ágætt svo langt sem það nær. En við eigum að ganga fram fyrir skjöldu, ganga lengra og neita því einfaldlega að gera fríverslunarsamninga og fullgilda þá við lönd sem brjóta á réttindum þegna sinna. Við eigum að neita því að vera þátttakendur í samningum um viðskiptalega hagsmuni á milli landa og við ríki sem standa svona að málum gagnvart sínum borgurum. Annað er bara marklaust hjal.

Við komum líklega nánar út í þennan vinkil á eftir þegar við ræðum um fullgildingu fríverslunarsamnings Íslands í gegnum EFTA-ríkin við Filippseyjar.