146. löggjafarþing — 53. fundur,  3. apr. 2017.

endurskoðendur.

312. mál
[18:26]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Frú forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um endurskoðendur, eftirlitsgjald, á þskj. 428, 312. mál. Með frumvarpi þessu er lögð til breyting á eftirlitsgjaldi endurskoðenda. Átta ár eru frá því að núgildandi lög um endurskoðendur tóku gildi. Með lögunum var endurskoðendaráði falið ríkara eftirlit með endurskoðendum en verið hafði. Mikilvægt er að ráðið geti sinnt því eftirlitshlutverki sem það hefur samkvæmt lögunum og með frumvarpinu eru lagðar til breytingar til að tryggja að svo sé.

Til að standa straum af kostnaði við störf endurskoðendaráðs greiða endurskoðendur árlegt gjald í ríkissjóð, svokallað eftirlitsgjald. Gjaldið er lögbundið og nemur 50 þús. kr. á hvern endurskoðanda og hefur það verið óbreytt síðastliðin átta ár. Vegna aukins umfangs í rekstri ráðsins nægja tekjur þess ekki fyrir kostnaði og verður því að hækka hið lögbundna gjald til að standa straum af honum. Útgjöld ráðsins hafa aukist, m.a. vegna hækkunar launataxta nefndarmanna og meiri sérfræðikostnaðar við stærri mál sem ráðið hefur fengið utanaðkomandi sérfræðinga til að skoða. Einnig eru meiri kröfur gerðar nú um samskipti við eftirlitsaðila, bæði á Norðurlöndum og annars staðar í Evrópu, og fylgir kostnaður slíkum fundum erlendis og samstarfi.

Lagt er til að eftirlitsgjald endurskoðenda hækki í 80 þús. kr. til að standa straum af kostnaði við lögbundið eftirlit með endurskoðendum. Einnig er lagt til að gjalddagi eftirlitsgjaldsins verði 1. apríl frá og með árinu 2018 í stað 1. janúar eins og er í gildandi lögum.

Við gerð frumvarpsins var haft samráð við endurskoðendaráð varðandi fjárhæðina sem lögð er til í frumvarpinu og byggist hún á fjárhagsáætlun ráðsins. Félag löggiltra endurskoðenda hefur einnig verið upplýst um þær breytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu. Verði frumvarpið óbreytt að lögum er ekki gert ráð fyrir að það muni hafa áhrif á afkomu ríkissjóðs.

Hæstv. forseti. Að lokinni þessari umræðu legg ég til að frumvarpinu verði vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar til umfjöllunar.