146. löggjafarþing — 53. fundur,  3. apr. 2017.

meðhöndlun úrgangs og ráðstafanir gegn umhverfismengun af völdum einnota umbúða fyrir drykkjarvörur.

333. mál
[18:32]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Björt Ólafsdóttir) (Bf):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 55/2003, um meðhöndlun úrgangs, og lögum nr. 52/1989, um ráðstafanir gegn umhverfismengun af völdum einnota umbúða fyrir drykkjarvörur.

Frumvarpið er endurflutt frá síðasta þingi. Það var unnið í samvinnu við stofnanir ráðuneytisins og hefur í tvígang verið sent hagsmunaaðilum til umsagnar. Auk þess hefur ráðuneytið unnið úr athugasemdum sem bárust við meðferð málsins á síðasta löggjafarþingi.

Meginmarkmið frumvarpsins er að tryggja að lög um meðhöndlun úrgangs samrýmist þeim skuldbindingum sem Ísland hefur undirgengist með EES-samningnum, þ.e. innleiðing EES-gerða og lagfæring á ákvæðum í þegar innleiddum EES-gerðum.

Í fyrsta lagi er um að ræða innleiðingu tilskipunar nr. 19/2012 um raf- og rafeindabúnaðarúrgang sem gerir m.a. kröfu um að bannað verði að farga ómeðhöndluðum raf- og rafeindatækjaúrgangi.

Í öðru lagi er um að ræða reglugerð frá ESB nr. 660/2014 um flutning úrgangs, sem hefur það að aðalmarkmiði að efla eftirlit með flutningi hans og koma í veg fyrir ólöglegan flutning úrgangs milli ríkja. Það skal gert með eftirlitsáætlunum sem byggjast á sérstöku áhættumati og beinast að fyrirtækjum, söfnunaraðilum og flutningsaðilum. Gert er ráð fyrir að Umhverfisstofnun útbúi eftirlitsáætlun um flutning úrgangs milli landa til þriggja ára í senn, en að öðru leyti er gert ráð fyrir að nánari ákvæði um slíkar áætlanir, innihald þeirra og umfang, ásamt viðeigandi skilgreiningum, verði sett í reglugerð.

Í þriðja lagi er það innleiðing ákvörðunar 727/2013 um snið fyrir upplýsingagjöf fyrir stefnu um úrgangsmálefni sem lýtur að upplýsingagjöf vegna þeirra. Er lagt til sveitarfélög verði skyldug til að senda Umhverfisstofnun upplýsingar um útgáfu og veigamiklar endurskoðanir á svæðisáætlunum um meðhöndlun úrgangs.

Í fjórða lagi er frumvarpinu ætlað að undirbúa innleiðingu á reglugerð ESB nr. 1257/2013 um endurvinnslu skipa sem stefnt er að að verði tekin upp í EES-samningnum á næstunni. Lagðar eru til breytingar sem fela í sér skilgreiningu á endurvinnslu skipa og útgáfu starfsleyfa.

Gert er ráð fyrir að Umhverfisstofnun veiti starfsleyfi fyrir starfsemi þar sem fram fer endurvinnsla skipa yfir 500 brúttótonnum, en heilbrigðisnefndir sveitarfélaga fyrir starfsemi sem endurvinnur minni skip. Í reglugerð ráðherra verður fjallað nánar um málið, m.a. um til hvaða skipa reglur um endurvinnslu ná, kröfur til eigenda þeirra skipa, endurvinnsluáætlanir skipa, skipaendurvinnslustöðvar og aðrar kröfur og skilyrði sem útgefandi telur nauðsynlegar og samrýmast markmiðum reglugerðarinnar, svo sem kröfur um bestu aðgengilegu tækni.

Í fimmta lagi hafa athugasemdir Eftirlitsstofnunar EFTA gefið tilefni til að lagfæra lög um meðhöndlun úrgangs vegna innleiðingar rammatilskipunar nr. 2008/98 um úrgang. Vegna athugasemdanna er lagt til að bætt sé við skilgreiningu á seljanda og miðlara og gerð krafa um starfsleyfi þessara aðila, auk þess sem bætt er við ákvæði um ábyrgð á úrgangsstjórnun.

Annað meginmarkmið frumvarpsins er að leggja til nauðsynlegar breytingar á sviði úrgangsmála. Í fyrsta lagi er lagt til að ákvæði um opinbera birtingu skýrslna rekstraraðila verði lagfærð til að ákvæðið samrýmist samkeppnislögum og til að tryggja ítarlegri öflun tölfræðiupplýsinga um úrgangsmál.

Í öðru lagi er lagt til að kæruheimild laganna á sviði úrgangsmála til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála verði lagfærð til samræmis við önnur lög á málefnasviði ráðuneytisins til aukins skýrleika. Talið er fullnægjandi að almenningi sé heimilt að kæra ákvarðanir stjórnvalda er varðar réttindi hans og skyldur, þ.e. svokallaðar stjórnvaldsákvarðanir, en kæruheimild gildandi laga er mun víðtækari.

Í þriðja lagi er gerð tillaga um að lögum nr. 52/1989, um ráðstafanir gegn umhverfismengun af völdum einnota umbúða fyrir drykkjarvörur, verði breytt til þess að heimila álagningu umsýsluþóknunar á ál. Undanfarin misseri hefur álverð verið sögulega lágt og gengi íslensku krónunnar styrkst verulega og því er komin upp sú staða hjá Endurvinnslunni hf. að tekjur vegna áls, þ.e. vegna sölu álumbúða, eru minni en kostnaður fyrirtækisins við meðhöndlun áls. Er því talið rétt að leggja til að umsýsluþóknun verði tekin fyrir álumbúðir, en fjárhæðinni verði stillt í hóf.

Virðulegi forseti. Ég hef hér rakið meginefni frumvarpsins. Ég legg til að frumvarpinu verði að lokinni 1. umr. vísað til hv. umhverfis- og samgöngunefndar.