146. löggjafarþing — 53. fundur,  3. apr. 2017.

varnir gegn mengun hafs og stranda og hollustuhættir og mengunarvarnir.

355. mál
[18:38]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Björt Ólafsdóttir) (Bf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um varnir gegn mengun hafs og stranda og lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir.

Frumvarpinu er ætlað að ljúka innleiðingu tveggja tilskipana sem kveða á um refsiviðurlög við tilteknum umhverfisbrotum. Hér er t.d. um að ræða brot á reglum um flutning og förgun úrgangs, brot á reglum um losun efna í andrúmsloft, jarðveg eða vatn sem hefur í för með sér eða er líklegt að hafi í för með sér alvarleg meiðsl eða dauða einstaklinga.

Greining á gerðunum hérlendis leiddi í ljós að ákvæði þeirra er að miklu leyti nú þegar að finna í íslenskri löggjöf. Þær breytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu munu leiða til þess að tiltskipanirnar verða að fullu innleiddar í íslenskan rétt. Í frumvarpinu er lögð til ein breyting á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir sem felur í sér að tilraun til brota og hlutdeild í brotum samkvæmt lögunum verður gerð refsiverð. Þetta er sem sagt nýlunda.

Breytingar sem lagðar eru til á lögum um varnir gegn mengun hafs og stranda fela m.a. í sér að ítrekuð minni háttar brot sem leiða til þess að vatn spillist munu teljast refsiverður verknaður og kveðið verður á um refsiábyrgð lögaðila vegna tiltekinna brota gegn lögunum.

Í frumvarpinu eru auk þess lagðar til breytingar sem munu leiða til þess að betra samræmis verði gætt við ákvæði IV. viðauka MARPOL-samningsins sem fjallar um reglur til að koma í veg fyrir skolpmengun frá skipum, en stefnt er að því að ljúka fullgildingu viðaukans á þessu ári. Það er áríðandi að það gerist sem allra fyrst.

Í frumvarpinu eru einnig lagðar til breytingar sem eru til komnar vegna athugasemda Eftirlitsstofnunar EFTA vegna fyrri innleiðinga Evrópugerða sem höfðu að mati stofnunarinnar ekki verið leiddar réttilega í íslensk lög. Hér er annars vegar um að ræða að fella þarf brott orðin „skipum sem þjónusta fiskeldi“, sem var breyting sem þingið kom með 2014 í lögum um mengun hafs og stranda, í ákvæði laganna um úrgangsgjald, en að mati ESA eru þau skip sem eru undanþegin greiðslu gjalda upptalin að fullu í tilskipun 59/2000 sem 11. gr. c laganna var ætlað að innleiða. Hins vegar er um að ræða að nú er skýrt tekið fram að losun mengandi efna á úthöfum sé ólögleg, en að mati ESA var innleiðing tilskipunar nr. 35/2015 ófullkomin vegna þess.

Hæstv. forseti. Með samþykkt frumvarpsins verður áréttað að mikilvægi þess að vernda umhverfið, bæta siglingaröryggi og auka vernd sjávar gegn mengun af völdum skipa, en hreint haf er í hag okkar allra.

Virðulegi forseti. Ég hef rakið meginefni frumvarpsins.

Ég legg til að frumvarpinu verði vísað til hv. umhverfis- og samgöngunefndar að lokinni 1. umr.