146. löggjafarþing — 53. fundur,  3. apr. 2017.

varnir gegn mengun hafs og stranda og hollustuhættir og mengunarvarnir.

355. mál
[18:41]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra ágætisyfirferð yfir málið. Ég er kannski að nýta mér þá aðstöðu mína að hafa hæstv. ráðherra hér í salnum og ræða aðeins við hana um ákveðna þætti frumvarpsins sem ég er í grunninn mjög ánægður með.

Hér er talað um í 3. gr., eins og ráðherra kom inn á, að ítrekuð minni háttar tilvik losunar þar sem hvert tilvik spillir ekki gæðum vatns heldur samansafn tilvika sem leiðir til þess að gæði vatns spillist, teljist refsiverður verknaður.

Mig langar aðeins að spyrja hæstv. ráðherra út í þetta. Ég er ekki að setja mig á móti einu eða neinu í þessu, heldur er talað um þetta samansafn tilvika. Og svo, ef ég skil rétt, er í 4. gr. talað um að gera megi lögaðila sekt vegna brotsins. Hvað þarf að koma til þegar verið er að horfa til þessa samansafns tilvika? Er verið að horfa til þess að ef gæði vatns spillist þá sé farið aðeins yfir söguna og skoðað hvernig það hafi gerst? Eru þetta ákveðin tilvik? Eða hvernig er ætlunin að þessu verði framfylgt?

Síðan segir í 5. gr., með leyfi forseta:

„Tilraun til brota og hlutdeild í brotum samkvæmt lögum þessum, reglugerðum settum samkvæmt þeim og samþykktum sveitarfélaga eru refsiverð eftir því sem segir í almennum hegningarlögum.“

Mig langar líka að spyrja hæstv. ráðherra aðeins út í það. Hér er talað um sektir annars vegar og svo almenn hegningarlög. Hvernig verður eftirliti háttað? Hver er raunverulegi refsiramminn, þ.e. er verið að vísa til sektanna í þessu með almennu hegningarlögin?