146. löggjafarþing — 53. fundur,  3. apr. 2017.

varnir gegn mengun hafs og stranda og hollustuhættir og mengunarvarnir.

355. mál
[18:44]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Björt Ólafsdóttir) (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég gerði mitt besta til að hlusta á allar spurningar hv. þingmanns. Ég veit ekki hvort ég náði þeim öllum.

Hvað varðar það sem hv. þingmaður spurði fyrst um er um að ræða að ítrekuð brot séu skilgreind sem eitt brot. Samansafn tilvika er þá eitt alvarlegt brot sem yrði orðið ólöglegt.

Svo var spurt um hver myndi hafa eftirlit og þvingunarúrræði. Þá sem endranær hefur Umhverfisstofnun eftirlit samkvæmt lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir. Það er 26. gr. sem fjallar um valdsvið og þvingunarúrræði og er í þremur þrepum. Hægt er að veita áminningu, hægt er að veita áminningu og tilhlýðilegan frest til úrbóta, og í þriðja lagi stöðva eða takmarka viðkomandi starfsemi eða notkun, þar með lagt hald á vörur og fyrirskipað förgun þeirra. Því skal því aðeins beitt að um alvarlegri tilvik eða ítrekað brot sé að ræða eða ef aðilar sinna ekki úrbótum innan tiltekins frests. Þá er Umhverfisstofnun samkvæmt lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir heimilt að leita aðstoðar lögreglu til dæmis.