146. löggjafarþing — 53. fundur,  3. apr. 2017.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 92/2016 um breytingu á XI. viðauka við EES-samninginn.

264. mál
[19:04]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Með þessari þingsályktunartillögu er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun Sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 59/2017, sem mælir fyrir um að tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins frá 2013 um endurnotkun upplýsinga frá hinu opinbera verði tekin upp í EES-samninginn.

Með þessari tilskipun eru gerðar breytingar á eldri tilskipun með sama efni. Í fyrri tilskipuninni voru settar ákveðnar lágmarksreglur um endurnotkun opinberra upplýsinga. Hins vegar hefur framkvæmdin í þessum efnum verið mjög mismunandi eftir EES-ríkjum og þótti því ástæða til þess að skerpa betur á þeim reglum sem gilda um endurnotkun upplýsinga frá hinu opinbera þar sem mismunandi reglur á þessu sviði hafa leitt til hindrana í viðskiptum með vörur og þjónustu.

Meginreglan í þessari tilskipun er sú að heimilt verði að endurnota öll þau gögn sem almenningur hefur rétt til aðgangs að samkvæmt upplýsingalögum. Þegar talað er um endurnotkun í þessu samhengi er átt við að einstaklingum og fyrirtækjum skal vera heimilað að nota upplýsingar sem hið opinbera býr yfir og almenningur hefur rétt á að fá aðgang að, t.d. til þess að skapa úr slíkum gögnum vörur eða þjónustu sem selja má í hagnaðarskyni. Við þessu eru þó settar vissar takmarkanir. Mikilvægasta takmörkunin er sú að þessi réttur nær eðlilega ekki til gagna sem eru varin höfundarétti. Þá fela reglur um vernd persónuupplýsinga í sér takmörkun á notkun persónugreinanlegra upplýsinga.

Þá ber þess að geta að stjórnvöldum er heimilt að krefjast eðlilegs endurgjalds á slíkri endurnotkun ef hún felur í sér kostnað fyrir opinbera aðila. Í dag er reglur um endurnot opinberra upplýsinga að finna í VII. kafla upplýsingalaganna. Innleiðing tilskipunarinnar mun því kalla á breytingar á þessum lögum og er að vænta frumvarps um innleiðingu tilskipunarinnar næstkomandi haust. Ákvörðun var því tekin með stjórnskipulegum fyrirvara af hálfu Íslands í sameiginlegu EES-nefndinni.

Samkvæmt lögum um þingsköp Alþingis ber að aflétta slíkum fyrirvara með þingsályktunartillögu. Því er óskað eftir samþykki Alþingis fyrir þeirri breytingu á EES-samningnum sem í ákvörðuninni felst svo aflétta megi hinum stjórnskipulega fyrirvara.

Ég legg til, virðulegi forseti, að að lokinni þessari umræðu verði tillögu þessari vísað til hv. utanríkismálanefndar.