146. löggjafarþing — 53. fundur,  3. apr. 2017.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 59/2017 um breytingu á XI. viðauka við EES-samninginn.

361. mál
[19:16]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Frú forseti. Þetta verður ekki löng ræða. Hún er líka dálítið sérkennilegs efnis og eiginlega í framhaldi af umræðunni í andsvörum um hvaða mál var verið að tala um. Ég held nefnilega að það hafi ekki alveg farið saman hljóð og mynd, eins og við vorum að tala um, því að ef ég skil rétt þá erum við að tala um mál nr. 59/2017 sem er 13. dagskrármálið. Það fjallar alls ekki um það sem hv. ráðherra talaði fyrir. Hins vegar var ræða ráðherrans um staðfestingu á EES-gerð 92/2016, um nethlutleysi og reikigjöld og það allt saman, Geo-Blocking og Skype. Það hefur orðið víxlun hérna á málum. Ég held að ég verði að vekja athygli þingheims á því að hér hefur orðið smávægilegur ruglingur en mjög bagalegur. Ég held að þetta sé svona vaxið ef ég skil þingskjölin rétt og innihald framsögunnar. (Gripið fram í.)