146. löggjafarþing — 53. fundur,  3. apr. 2017.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 92/2016 um breytingu á XI. viðauka við EES-samninginn.

264. mál
[19:32]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Frú forseti. Ég þakka fyrir að mælt hafi verið fyrir málinu í annað skiptið því að ég missti af tækifærinu til að komast á mælendaskrá í fyrra skiptið. Ég ætla ekki að hafa þetta langt en langaði að nota tækifærið til að minnast á það hvað þetta er rosalega mikilvægt mál. Nethlutleysi er í rauninni jafn mikilvægt fyrir eðlilega starfsemi netsins og einhvers konar rafmagnshlutleysi eða vatnshlutleysi, ef hægt væri að gera greinarmun á mismunandi tegundum rafmagns og vatns. Því miður hefur það orðið svo í þróun netsins að tilraunir hafa verið gerðar til þess að gera greinarmun á mismunandi tegundum upplýsinga sem flæða um netið eftir því hvers konar þjónusta er veitt hverju sinni. Þá hefur m.a. orðið til sú hneigð að líta á t.d. myndbönd og þess háttar sem eitthvað meira íþyngjandi en texta, að jafnvel líta á efni frá samkeppnisaðilum sem sérstakan skaðvald og menn búa til takmarkanir á því að samkeppnisaðilar eða efni frá þeim komist inn á netsvæði eða þeirra hluta netsins hverju sinni og til viðskiptavina sinna og þar fram eftir götum. Öll umræða um nethlutleysi snýst eiginlega um það að allar upplýsingar sem fara um netið skuli lúta sömu reglum, alveg sama hvaðan þær koma, hvert þær eru að fara, í hvaða tilgangi þær eru sendar. Þetta er eitt af grundvallaratriðunum í uppbyggingu netsins, að allir geti sótt hvað sem er hvenær sem er án nokkurra takmarkana.

Nú eru takmarkanir í þessum reglugerðum um að tálma megi í tilfelli dómsúrskurða. Þetta atriði hefur mikið verið deilt um og spurningar um hvort þetta hafi yfir höfuð einhverja virkni. Til eru dæmi um svokallaðar DNS-blokkeringar hér á landi sem hafa ekki haft nein raunveruleg áhrif en hafa aftur á móti valdið skaða með því að láta ákveðna þjónustuveitendur búa til sérstakar takmarkanir á upplýsingaflæði. Því hefur verið mælt með því að fara frekar þá leið að taka niður ólögmætt efni með dómsúrskurðum þegar hægt er miklu frekar en að fara út í það sem mætti og ætti að kalla ritskoðun.

Það eina fyrir utan þetta sem er leyft í þessu er ákveðnar gæðatakmarkanir, að beina megi upplýsingum með öðrum hætti í gegnum netið en ella ef það gegnir því hlutverki að auka þjónustugæði neytenda. Það er hið besta mál.

Ég ætla ekki að eyða meiri tíma í þetta, enda liggur mörgum á að klára þessi mál. En ég vona að það ríki góður skilningur hjá þingmönnum á því að viðhafa þarf nethlutleysi og styðja vel við það og mjög mikilvægt við leyfum hvorki fyrirtækjum né öðrum að komast upp með að setja mismunandi forgang á mismunandi upplýsingar eða jafnvel að stunda ritskoðun í ólöglegum tilgangi. Við ættum því að láta þetta mál ná fram að ganga sem fyrst.