146. löggjafarþing — 53. fundur,  3. apr. 2017.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 92/2016 um breytingu á XI. viðauka við EES-samninginn.

264. mál
[19:36]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Frú forseti. Ég sé sérstaka ástæðu til að stíga í pontu og fagna því að við séum að fjalla um þetta mikilvæga mál. Þetta er stórt neytendamál. Hér er verið að draga úr kostnaði símnotenda á ferðum þeirra um Evrópu með því að fella niður svokölluð reikigjöld, þ.e. að óheimilt verði að leggja viðbótargjöld ofan á símtöl þótt maður sé í útlöndum. Menn kannast mjög vel við það að símreikningar áttu það gjarnan til að rjúka upp úr öllu valdi ef þeir fóru til útlanda. Síðan er líka talað um það sem kallað er hér landfræðilegar takmarkanir á netumferð, eða Geo-Blocking. Ég held að það sé líka mjög mikilvægt neytendamál.

En ég vildi koma upp til að benda mönnum á það að hér er mjög stórt neytendamál á ferðinni. Hvaðan kemur það? Það kemur frá höfuðstöðvum Evrópusambandsins í Brussel og er enn eitt dæmið um að það kemur margt gott frá Brussel.