146. löggjafarþing — 53. fundur,  3. apr. 2017.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 59/2017 um breytingu á XI. viðauka við EES-samninginn.

361. mál
[19:41]
Horfa

Pawel Bartoszek (V):

Virðulegi forseti. Ég sé ástæðu til að koma hingað upp og fagna því sérstaklega að við stefnum að því að innleiða þennan tiltekna bálk í okkar löggjöf. Ég þekki þessi mál að einhverju leyti enda var seinasti starfsvettvangur minn einmitt á sviði gagna og upplýsinga. Ég þekki það vel að þessi mál eru ekki alltaf í mjög góðum farvegi hér á landi, t.d. í samanburði við Bandaríkin þar sem menn hafa stigið mjög góð skref í átt að opnun gagna. Það var algengt hérlendis, þegar maður leitaði eftir leyfi til að nota tilteknar upplýsingar, tiltekin gögn, af heimasíðum ákveðinna stofnana, að þá var næsta spurning alltaf: Hvað ertu að fara að nota þetta í? Það var viðbragðið, að leyfið sem væri veitt til að nota gögnin væri háð því hvað sá sem ætlaði að fá þau hygðist gera við þau. Mér sem manni sem aðhyllist upplýsingafrelsi litist miklu betur á ef við myndum einfaldlega opna gögn og gera þau gjaldfrjáls og að heimilt væri að endurnota þau í hvaða tilgangi sem menn kjósa án þess að hið opinbera væri endilega að velta því fyrir sér hver ásetningurinn með notkun gagnanna væri.

Ég velti því fyrir mér í tengslum við þessi tilteknu mál að þarna er tekið fram að þessi tiltekna heimild nái ekki til höfundaréttarvarinna gagna. Eftir því sem ég hef komist að þá er það meginregla á Íslandi að þau gögn sem ríkið framleiðir eru höfundaréttarvarin og ríkið fer með höfundaréttinn, þannig að hugsanlega nær þetta ekki þeim fulla árangri sem ég hefði kosið. Það er auðvitað okkar ákvörðun að breyta því og stíga kannski frekar skref í þá veru sem hefur verið gert í Bandaríkjunum og að einhverju leyti í Bretlandi þar sem það er meginregla að þau gögn og skjöl sem ríkið býr til séu ekki höfundaréttarvarin heldur séu svokallaður almenningur.

Ég fagna því að við séum að taka þennan bálk inn í okkar lagaumhverfi og vona að við notum tækifærið til að líta á opnun gagnanna almennt þegar það verður gert.