146. löggjafarþing — 53. fundur,  3. apr. 2017.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 59/2017 um breytingu á XI. viðauka við EES-samninginn.

361. mál
[19:46]
Horfa

Pawel Bartoszek (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að ávarpa mig og vekja máls á þessu og gera því skóna að við getum nýtt þetta ferli til að opna gögn, sem íslenska ríkið býr til, frekar.

Mig langar að nota tækifærið til að árétta ákveðinn mun sem er kannski ekki öllum ljós sem vinna ekki í þessum bransa, sem er sá og það er tvennt; annars vegar gjaldfrelsi upplýsinganna og hins vegar endurnotkunarréttur. Gögn geta sem sagt verið gjaldfrjáls og mikið af gögnum sem íslenska ríkið býr til eru það, en hins vegar er ekki endilega frjáls endurnotkunarréttur á þeim, þau eru varin höfundarétti. Dæmi um þetta er Fréttablaðið. Fréttablaðið er gjaldfrjálst þegar það kemur í hús, en það efni sem þar er inni er engu að síður höfundaréttarvarið. Það er mikilvægt að átta sig á þessu. Svo er hægt að fara hina leiðina líka, að reyna að rukka fyrir aðgang að gögnum, rukka fyrir eðlilegan aðgang að gögnum sem bara hlýst af því að menn þurfa að halda uppi einhverjum tölvukerfum til þess að veita síðan fullan rétt á endurnotkun.

Mig langaði að nýta þetta andsvar til að koma að þessum sjónarmiðum. Ég hlakka til að sjá hvernig ráðherrann bregst við því.