146. löggjafarþing — 53. fundur,  3. apr. 2017.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 194/2016 um breytingu á XIX. viðauka við EES-samninginn.

363. mál
[19:52]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Með þessari þingsályktunartillögu er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 194/2016 sem mælir fyrir um að þrjár gerðir Evrópusambandsins á sviði neytendaverndar verði teknar upp í EES-samninginn.

Gerðunum er ætlað að tryggja öfluga neytendavernd á Evrópska efnahagssvæðinu einkum þegar viðskipti eiga sér stað á internetinu, en aðgengi að leiðum til að leysa deilumál sem upp koma við sölu á vörum eða þjónustu á netinu hefur reynst misgott. Sem dæmi getur það vaxið fólki í augum að skipta eða skila vöru sem keypt er á netinu, sem verður til þess að fólk verslar ekki aftur á þeim vettvangi.

Með reglugerð Evrópusambandsins frá 2013 er því komið á heildstæðri löggjöf um lausn deilumála sem rísa vegna viðskipta á netinu og þar með rafrænni málsmeðferð. Með reglugerðinni er komið á fót miðlægum gagnagrunni fyrir neytendur og seljendur sem vilja leita lausnar á deilumáli sem hefur sprottið út frá viðskiptum á netinu. Gagnagrunnurinn er einfaldur í notkun og verður aðgengilegur á íslensku.

Í framkvæmdarreglugerð frá árinu 2015 eru settar ítarlega reglur um notkun gagnagrunnsins. Það er þó ekki nóg að koma á fót rafrænum gagnagrunni til að styrkja stöðu neytenda í viðskiptum á netinu. Forsenda þess að gagnagrunnurinn virki sem skyldi er að neytendur hafi í raun aðgengi að úrskurðaraðilum utan dómstóla. Samhliða reglugerðinni var því samin tilskipun um lausn deilumála neytenda utan dómstóla sem kemur reglugerðinni til fyllingar.

Tilskipunin mælir fyrir um almennar reglur um lausn deilumála utan dómstóla vegna ágreinings um skyldur samkvæmt sölu- eða þjónustusamningum, innan lands og yfir landamæri, þegar bæði seljandi og neytandi eru búsettir á Evrópska efnahagssvæðinu.

Innleiðing þessara gerða kallar á breytingar á lögum um lausafjárkaup, lögum um þjónustukaup og lögum um neytendakaup. Ákvörðun var því tekin með stjórnskipulegum fyrirvara af hálfu Íslands í sameiginlegu EES-nefndinni.

Samkvæmt lögum um þingsköp Alþingis ber að aflétta slíkum fyrirvara með þingsályktunartillögu. Því er óskað eftir samþykki Alþingis fyrir þeirri breytingu á EES-samningnum sem í ákvörðuninni felst svo aflétta megi hinum stjórnskipulega fyrirvara.

Ég legg til, virðulegi forseti, að að lokinni þessari umræðu verði tillögu vísað til hv. utanríkismálanefndar.