146. löggjafarþing — 53. fundur,  3. apr. 2017.

loftslagsmál.

356. mál
[20:01]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Björt Ólafsdóttir) (Bf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 70/2012, um loftslagsmál. Frumvarpið felur annars vegar í sér innleiðingu reglugerðar frá ESB um vöktun, skýrslugjöf og sannprófun á losun koldíoxíðs frá sjóflutningum. Hins vegar er lagt til í frumvarpinu að gildistími ákvæðis V til bráðabirgða við lögin verði framlengdur um eitt ár, en ákvæðið varðar gildissvið viðskiptakerfis um losunarheimildir í flugi.

Reglugerð ESB um vöktun á losun koldíoxíðs frá sjóflutningum hefur í för með sér að frá og með 1. janúar 2018 verður hafin vöktun á losun frá farþega- og flutningaskipum sem eru yfir 5.000 brúttótonn. Áhrif reglugerðarinnar verða lítil á Íslandi því að engin skip sem eru yfir 5.000 brúttótonn er nú að finna í íslenskum skipaflota.

Hæstv. forseti. Í frumvarpinu er lagt til að V. ákvæði til bráðabirgða verði framlengt um eitt ár og muni því einnig vera í gildi árið 2017. Í ákvæðinu er kveðið á um þrengt gildissvið viðskiptakerfis ESB með losunarheimildir hvað varðar flugstarfsemi. Upphaflega gilti viðskiptakerfið bæði um flug innan Evrópska efnahagssvæðisins og um flug til og frá því. Gildissvið viðskiptakerfisins í flugi hefur hins vegar verið takmarkað við flug innan Evrópska efnahagssvæðisins frá árinu 2013 vegna þess að vonast var til að hægt yrði að ná samkomulagi um hnattrænar aðgerðir til að draga úr losun frá flugi innan vébanda Alþjóðaflugmálastofnunarinnar.

Stofnunin hefur náð niðurstöðu í málinu og ályktað árið 2016 að frá og með árinu 2021 tæki gildi hnattrænt samkomulag um vöktun á losun frá flugi. Í kjölfarið ákvað Evrópusambandið að rétt væri að takmarka áfram gildissvið viðskiptakerfisins vegna flugstarfsemi við flug innan Evrópska efnahagssvæðisins til 2021.

Reglugerð Evrópusambandsins þess efnis liggur fyrir í drögum en gert er ráð fyrir að hún verði samþykkt af hálfu Evrópusambandsins fyrir lok árs 2017. Samkvæmt íslenskum lögum rann ákvæði V til bráðabirgða við lög um loftslagsmál út um síðustu áramót sem þýðir að gildissvið viðskiptakerfisins nú miðast við allt flug, einnig flug utan EES-svæðisins. Af þeim ástæðum þarf að framlengja ákvæði V til bráðabirgða og kveða á um þrengt gildissvið viðskiptakerfisins og að úthlutun losunarheimilda fari fram eigi síðar en 30. apríl 2017.

Virðulegi forseti. Ég hef rakið meginefni frumvarpsins og legg til að því verði vísað til hv. umhverfis- og samgöngunefndar að lokinni 1. umr.