146. löggjafarþing — 53. fundur,  3. apr. 2017.

hollustuhættir og mengunarvarnir.

376. mál
[20:17]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að hafa tekist á hendur það nánast óyfirstíganlega verkefni að fara í svo fáum orðum yfir svo flókið og víðfeðmt frumvarp. Ég ætla ekki að fara mjög náið ofan í frumvarpið og allar tæknilegar hliðar sem þar er að finna en mig langaði að spyrja hæstv. ráðherra aðeins út í þá hugmynd að komið verði á skráningarskyldu í stað starfsskyldu í einhverjum tilvikum. Þetta er að einhverju leyti hluti af umræðu sem hefur átt sér stað lengi, fyrirtæki hafa oft kvartað yfir því að það sé mikið ferli að fá starfsleyfi en á móti kemur að þá eru viss ákvæði uppfyllt, ákveðið eftirlit og allt sem þarf að vera á hreinu við það.

Hæstv. ráðherra fór mjög lauslega yfir það að t.d. heimagisting gæti átt heima í svona ferli en ef ég skil þetta rétt er það undir hæstv. ráðherra sjálfum komið að setja í reglugerð hvaða starfsemi myndi falla þar undir. Við fyrstu yfirferð á þessu og að heyra þetta velti ég fyrir mér hvort það sé ráð, ekki að ég hafi ekki traust á núverandi hæstv. umhverfisráðherra en ég velti fyrir mér hvort það sé vald sem hæstv. ráðherra hverju sinni, hann eða hún, eigi að fara með, að geta með einfaldri reglugerðarbreytingu sett fram hvaða starfsemi þurfi ekki lengur á starfsleyfi að halda eða færri starfsskyldum og einungis skráningarskyldu.