146. löggjafarþing — 53. fundur,  3. apr. 2017.

hollustuhættir og mengunarvarnir.

376. mál
[20:24]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Björt Ólafsdóttir) (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég veit auðvitað að hv. þingmaður situr í umhverfis- og samgöngunefnd og þar hefur hann málið með höndum. Ég er eiginlega viss um að þegar hann fer að kafa ofan í það sér hann að hendur ráðherra eru bundnar meira en hér hefur kannski verið velt upp. Svo ég einfaldi þetta á stuttum tíma er eiginlega öll starfsemi starfsleyfisskyld. Það er hægt að lesa alla viðaukana um það hvernig starfseminni er háttað, hvernig hún er skilgreind. Þetta er mjög ítarlegt, það kemur fram að allt sem þar kemur fram sé sannarlega og muni vera starfsleyfisskylt og það getur aldrei orðið háð hentisemi ráðherra. Þó er verið að opna á t.d. heimagistingu sem við höfum skilgreint þannig að það ætti að vera í lagi að bjóða fólki að gista á heimilum fólks sem eru sannarlega íbúðarhæf og þá á að vera leyfilegt að fólk nýti einkaheimili sín til að leigja út tiltekna daga á árinu, 90 daga eða sem svarar 2 milljónum á ári, áður en við förum að leggja fjármagnstekjuskatt á tekjurnar. Sú starfsemi er t.d. sannarlega ekki mengandi í þeim skilningi. Þá er eins gott að það sé mjög mikil reiða (Forseti hringir.) á sorpflokkun og öðru. Við getum kannski troðið því inn í seinna en þetta er sú hugsun sem hér er verið að reyna að fanga.