146. löggjafarþing — 54. fundur,  4. apr. 2017.

störf þingsins.

[13:39]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Virðulegi forseti. Ætlun mín var að eiga hér orðastað við formann umhverfis- og samgöngunefndar en þar sem hún er stödd erlendis verð ég að eiga orðastað við sjálfan mig og er svo sem vanur því. Ekki hef ég þolinmæði til að bíða heimkomu hennar með erindið.

Mig langar að vekja máls á þeirri staðreynd að í fjármálaáætlun fyrir árin 2018–2022 sem við munum ræða hér, ég er að taka forskot á sæluna, er svívirðilega lítið um fjármuni í samgöngumál. Ég tala ekki um miðað við þá umræðu sem verið hefur undanfarið og svo alls ekki sé talað um þá umræðu sem var hér fyrir kosningar þegar samgönguáætlun var samþykkt. Árið 2017 eru settir um 33 milljarðar í þennan málaflokk. Það hækkar örlítið á næstu árum, lækkar reyndar á milli áranna 2020–2021 og endar í 40 milljörðum árið 2020. Þetta er um 7 milljarða hækkun og þá er ekki tekið tillit til verðlagsþróunar.

Í fjármálaáætluninni segir, með leyfi forseta:

„Sömuleiðis er mikil þörf fyrir uppbyggingu og þróun vegakerfisins til að auka öryggi og bregðast við aukinni umferð.“

Það verður ekki gert með þessum fjármunum. Svo segir líka í þessari áætlun, með leyfi forseta:

„Þá er leitast við að ná markmiðum um orkuskipti þannig að endurnýjanleg, innlend orka nýtist sem mest og með stuðningi við almenningssamgöngur á lofti, láði og legi, auk þess að auka fjölbreytni í vali ferðamáta innan þéttbýlis m.a. með sérreinum og þátttöku í stígagerð.“

Heldur einhver að öll þessi fínu markmið rúmist innan þessarar aukningar, svívirðilega litlu aukningar, sem á að fara í þennan málaflokk þegar þörfin fyrir umbætur er jafn rík og raun ber vitni?