146. löggjafarþing — 54. fundur,  4. apr. 2017.

störf þingsins.

[13:46]
Horfa

Katla Hólm Þórhildardóttir (P):

Frú forseti. Hv. þingkonur og -menn. Virðulegt landsfólk. Ég stend auðmjúk frammi fyrir ykkur í dag eins og flesta daga en um leið spyr kona sig: Hvað erum við að gera hér? Hvernig samfélagi viljum við búa í?

Þessi spurning er afar mikilvæg. Við höfum þau forréttindi að sinna hlutverki þingfólks í þjónustu almennings og eigum að spyrja okkur þessarar spurningar á degi hverjum: Hvað erum við að gera hér?

Við sem förum með valdið eigum að sýna fordæmi og skapa saman réttlátt og sanngjarnt samfélag þar sem ráðafólk áttar sig á siðferðilegri skyldu sinni gagnvart fólkinu í landinu. Hér eigum við að skapa samfélag þar sem hver og einn einstaklingur fær að blómstra á eigin forsendum. Við berum siðferðilega skyldu til að tryggja öllu fólki sem hér kýs að búa vissa grunnþjónustu, framúrskarandi heilbrigðisþjónustu, góðar samgöngur og fyrsta flokks menntakerfi, þar sem heilbrigðiskerfið virkar þegar fólk er veikt, óháð búsetu eða fjárhag, þar sem við þurfum ekki að óttast getuleysi heilbrigðisstarfsfólks sem er til orðið vegna fjárskorts, heilbrigðiskerfi sem við getum einfaldlega treyst. Okkur ber siðferðileg skylda til að tryggja samgöngukerfi sem er öruggt, þar sem raunverulegt val er um samgöngumáta sem stuðla að umhverfisvænum lífsstíl, samgöngukerfi þar sem fólk er ekki í hættu statt á ferð sinni um landið. Okkur ber siðferðileg skylda til að tryggja menntakerfi þar sem öll skólastig eru framúrskarandi og með þá þjónustu sem er nauðsynleg þannig að einstaklingar með misjafnar þarfir geta stundað nám á jafningjagrundvelli. Við þurfum að skapa menntakerfi sem tryggir öllu fólki jafnan aðgang að æðri menntun.

Þegar ríkisvaldið forgangsraðar fjármunum samfélagssjóða okkar er það siðferðileg ábyrgð þess að tryggja þessar grunnstoðir og velferð allra og því megum við ekki gleyma. Mér finnst þessi ríkisstjórn ekki gæta hagsmuna jaðarsettra hópa, fátækra og almennings í landinu. Þetta er ríkisstjórn ríka fólksins.