146. löggjafarþing — 54. fundur,  4. apr. 2017.

íslenskur ríkisborgararéttur.

373. mál
[14:03]
Horfa

dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um íslenskan ríkisborgararétt. Um er að ræða breytingar sem fyrst og fremst varða þá sem eru ríkisfangslausir eða hafa komið hingað til lands á barnsaldri.

Markmið frumvarpsins er að koma í veg fyrir ríkisfangsleysi með því að auðvelda þeim sem ekki hafa ríkisfang að öðlast ríkisborgararétt. Með frumvarpinu er einnig komið til móts við ungt fólk sem náð hefur hér fótfestu að öðlast íslenskan ríkisborgararétt. Þá er lagt til að einfalda skráningu íslensks ríkisborgararéttar barns sem fæðist erlendis og á íslenskan föður og erlenda móður sem ekki eru í hjúskap og að lokum er með þessu frumvarpi lögð til breyting á málsmeðferð vegna skráningar íslensks ríkisborgararéttar ættleiddra barna þegar íslenskt kjörforeldri er búsett erlendis við ættleiðinguna.

Breytingarnar eru mismiklar þar sem í núgildandi lögum eru nú þegar nokkur ákvæði er varða börn og ríkisfangslausa. Hins vegar er frumvarpinu ætlað að tryggja lagastoð með hliðsjón af undirbúningi fullgildingar tveggja samninga Sameinuðu þjóðanna um ríkisfangsleysi, annars vegar samning frá 1954 um réttarstöðu ríkisfangslausra einstaklinga og hins vegar samning frá 1961 um að draga úr ríkisfangsleysi.

Þá hefur við undirbúning frumvarpsins m.a. verið haft samráð við Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna sem hóf herferð í lok árs 2014 sem ætlað er að standa í tíu ár með það að leiðarljósi að eyða algjörlega ríkisfangsleysi á heimsvísu.

Virðulegur forseti. Ég vil fara stuttlega yfir helstu breytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu. Þær eru eftirfarandi:

Í fyrsta lagi er lagt til að barn öðlist íslenskt ríkisfang við fæðingu ef annað foreldri þess er íslenskur ríkisborgari, óháð því hvort barnið fæðist hér á landi eða erlendis og óháð því hvort foreldrar barnsins hafi gengið í hjúskap. Þá er einnig lögð til sú orðalagsbreyting að felld verði niður vísun til orðanna faðir og móðir og í staðinn notað orðið foreldri. Það orð mun þá einnig ná til konu sem samþykkt hefur að tæknifrjóvgun fari fram á eiginkonu sinni eða sambúðarmaka. Þessi breyting varðar fyrst og fremst börn sem fædd eru erlendis og eiga íslenskan föður, sem ekki er í hjúskap með erlendri móður barns. Breytingin miðar að því að jafna rétt barna sem eiga íslenskt foreldri til að öðlast íslenskan ríkisborgararétt við fæðingu. Hingað til hefur nefnilega þurft að óska eftir ríkisborgararétti fyrir barnið hjá Útlendingastofnun og greiða fyrir gjald en með breytingunni mun eingöngu þurfa að óska eftir skráningu barnsins hjá Þjóðskrá og fær barnið þá sjálfkrafa íslenskan ríkisborgararétt eins og til dæmis tíðkast með börn sem fædd eru erlendis þegar foreldrar eru í hjúskap.

Í öðru lagi eru nokkur ákvæði um rétt barna til að öðlast íslenskt ríkisfang. Miða þau m.a. að því að lengja þann tíma sem ungt fólk hefur í dag til að óska eftir íslensku ríkisfangi. Önnur nýmæli varða heimild barna sem eru ríkisfangslaus eða hafa hlotið alþjóðlega vernd til að óska eftir íslensku ríkisfangi. Ákvæði um barn sem fæðist hér á landi og er ríkisfangslaust hefur verið í íslenskum lögum um langan tíma. Nú er lagt til að málsmeðferð verði einfölduð og unnt verði að óska eftir ríkisfangi fyrir barn í þessari stöðu allt til 21 árs aldurs í stað 18 ára.

Ákvæði um fæðingu barns um borð í íslensku skipi eða loftfari er nýmæli en sú breyting er í samræmi við samning Sameinuðu þjóðanna frá 1961 um að draga úr ríkisfangsleysi. Þá er lögð til lítils háttar breyting á möguleikum þeirra sem flust hafa hingað til lands ungir að árum en hafa náð 18 ára aldri til að óska eftir ríkisborgararétti með einfaldari hætti en með umsókn en heimildin er lengd til 21 árs aldurs í stað 20 ára. Enn fremur er krafa um búsetu þessara barna hér á landi stytt úr sjö árum í fimm ár. Þá eru lagðar til víðtækari heimildir en eru í núgildandi lögum fyrir ríkisfangslaust barn sem komið hefur hingað til lands ungt að árum eða barn sem hefur hlotið alþjóðlega vernd. Þannig er lagt til að í þeim tilvikum verði hægt að óska eftir ríkisborgararétti fyrir barn eftir þriggja ára búsetu hér á landi fram til 21 árs aldurs.

Í þriðja lagi er lagt til nýtt ákvæði um að fullorðnir einstaklingar sem eru ríkisfangslausir geti lagt fram umsókn um ríkisborgararétt eftir fimm ára búsetu hér á landi en almenna reglan er sjö ár. Er þetta til samræmis við ákvæði laganna um flóttamenn sem komið hafa hingað til lands og fullnægja skilgreiningu í alþjóðasamningi um stöðu flóttamanna sem gerður var 28. júlí 1951 og um þá sem fengið hafa dvalarleyfi af mannúðarástæðum.

Að lokum er lögð til lítils háttar breyting á málsmeðferð þegar íslenskt kjörforeldri barns, sem búsett er erlendis og hefur ættleitt barn eftir reglum í sínu heimalandi, óskar eftir íslensku ríkisfangi fyrir barnið. Lagt er til að þau mál verði afgreidd hjá sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu sem fer með ættleiðingarmál en ekki hjá Útlendingastofnun eins og er í dag.

Enn fremur er lagt til að barn sem ættleitt er áður en það verður 18 ára geti fengið íslenskan ríkisborgararétt við staðfestingu ættleiðingar í stað þess að miða við 12 ára aldur.

Virðulegi forseti. Frumvarp það sem hér er mælt fyrir er hluti af þeim lagaúrbótum sem ráðast þarf í til þess að Ísland geti fullgilt þá samninga sem áður var getið um, samninga Sameinuðu þjóðanna um ríkisfangsleysi. Með nýjum lögum um útlendinga sem öðluðust gildi 1. janúar síðastliðinn var samþykkt ný löggjöf um útlendinga sem einnig miðar að því að tryggja lagastoð vegna fullgildingar þessara samninga en með þessu frumvarpi er talið að lagagrundvelli til fullgildingar verði algjörlega náð.

Virðulegi forseti. Ég hef gert grein fyrir efnisatriðum frumvarpsins og legg til að því verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. allsherjar- og menntamálanefndar og 2. umr.