146. löggjafarþing — 54. fundur,  4. apr. 2017.

íslenskur ríkisborgararéttur.

373. mál
[14:10]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við stöndum hér á vissum tímamótum því að það er ekki á hverjum degi sem við erum að reyna að fullgilda 60 ára gamla alþjóðasamninga. Margt virðist horfa til bóta í frumvarpinu, t.d. fagna ég því, eins og væntanlega hæstv. ráðherra, vegna þess að bæði erum við mikið áhugafólk um jafnrétti, að í stað orðanna faðir og móðir verði talað um foreldri og að hjúskapur sé ekki nauðsynlegt skilyrði samkvæmt lögum heldur nægi sambúð.

Mig langar samt að spyrja ráðherrann varðandi tæknifrjóvgunarhluta frumvarpsins. Þar er sett það skilyrði að tæknifrjóvgun erlendis hafi verið gerð samkvæmt heimild þar til bærra stjórnvalda eða dómstóla. Þannig háttar til að í ýmsum ríkjum er heimild fyrir staðgöngumæðrun. Ég velti því fyrir mér hvort þetta ákvæði gæti orðið nokkurs konar bakdyr fyrir staðgöngumæðrun inn í íslenskan rétt án þess að við tökum þá umræðu á réttum vettvangi.