146. löggjafarþing — 54. fundur,  4. apr. 2017.

íslenskur ríkisborgararéttur.

373. mál
[14:21]
Horfa

dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Frumvarpið miðar aðallega að því að veita ríkisfangslausum börnum og fullorðnum ákveðna réttarvernd. Eins og ég gat um í framsöguræðu minni er í núgildandi lögum ákvæði sem mætir því að nokkru leyti, en við höfum fengið ábendingar um að til þess að geta fullgilt nefnda alþjóðasamninga sem ætlað er að útrýma ríkisfangsleysi, þá þurfi að girða fyrir það eða veita lagastoð tilteknum réttindum. Þetta eru ekki mörg tilfelli sem koma hingað til lands, það eru ekki margir sem koma hingað til Íslands sem sannanlega eru ríkisfangslausir, en það eru þó tilvik sem við höfum uppi og mönnum hefur verið veittur ríkisborgararéttur. Það eru örfá tilvik sem Íslendingar hafa þurft að glíma við og varða ríkisfangsleysi.