146. löggjafarþing — 54. fundur,  4. apr. 2017.

meðferð sakamála.

374. mál
[14:37]
Horfa

dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S):

Virðulegur forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um meðferð sakamála. Um er að ræða breytingar sem einfalda meðferð smærri mála hjá lögreglu og spara þannig tíma sem fer í afgreiðslu mála.

Í 148. gr. laga um meðferð sakamála er kveðið á um að standi lögregla mann að broti sem fellur undir ákæruvald lögreglustjóra og hann gengst skýlaust við brotinu, þetta eru svokölluð játningarmál, og lögregla telur að viðurlög við brotinu séu einungis sekt sem fer ekki fram úr tiltekinni fjárhæð samkvæmt reglugerð um lögreglustjórasektir er unnt að ganga frá málinu á vettvangi. Meðferð þessara mála hefur verið með þeim hætti að lögreglumenn rita skýrslu á vettvangi á þar til gerð eyðublöð. Skýrslan er svo undirrituð af sakborningi og honum afhent afrit af skýrslunni. Síðan er skýrslan færð í lögreglukerfið þegar komið er á lögreglustöð, þannig að skýrslan er í raun rituð tvisvar.

Nú hefur verið ráðist í að búa lögreglubifreiðar spjaldtölvum sem tengdar eru lögreglukerfinu og nota þar með nýjustu tækni til að nýta betur mannafla lögreglunnar. Nú er mögulegt að skrá skýrslurnar í gegnum spjaldtölvu beint inn í lögreglukerfið.

Í þessu frumvarpi eru lagðar til breytingar þannig að unnt verði að skrá smærri brot beint í lögreglukerfi á staðnum og spara þannig þann tíma sem farið hefur í að fylla út lögregluskýrslu á staðnum og skrá atvikið svo á ný í lögreglukerfið. Hér eru lagðar til breytingar á lögum þannig að skýrt sé að undirrita megi lögregluskýrslu með rafrænum hætti, m.a. á skjá eins og gert er við útgáfu vegabréfa sem og að afhenda megi lögregluskýrslu með rafrænum hætti. Farið hefur fram úttekt á öryggi þessa fyrirkomulags. Er niðurstaðan sú að áhættan af því fyrirkomulagi sé innan ásættanlegra marka.

Hæstv. forseti. Ég hef gert grein fyrir efnisatriðum frumvarpsins en vísa að öðru leyti til greinargerðar. Hér er um að ræða breytingar sem að mínu mati munu auka mjög skilvirkni og minnka þann tíma sem varið er við afgreiðslu smærri brota. Ég legg því til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. allsherjar- og menntamálanefndar og 2. umr.