146. löggjafarþing — 54. fundur,  4. apr. 2017.

meðferð sakamála.

374. mál
[14:40]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Herra forseti. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra í fyrsta lagi um það áhættumat sem fór fram við gerð þessa frumvarps. Hvaða áhættuþættir eru það að mati matsaðila sem líta bar til og var eitthvað sem bar út af? Hæstv. ráðherra segir að það hafi verið innan ásættanlegra marka. Hver stóð að matinu og hvaða þættir voru teknir til skoðunar?

Eins langar mig að spyrja hæstv. ráðherra hvort standi til að nota þessar spjaldtölvur til einhverra annarra hluta en rafrænna skila á skýrslum. Stendur til að láta lögreglumenn fá lyklaborð með slíkum spjaldtölvum, af því að ég hugsa að það verði ekki mikill tímasparnaður ef lögreglumenn þurfa að pikka inn skýrslur með puttunum á spjaldtölvurnar.