146. löggjafarþing — 54. fundur,  4. apr. 2017.

meðferð sakamála.

374. mál
[14:43]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra andsvarið. Mig langar að ítreka í fyrsta lagi spurningu mína um það hver það var sem stóð að öryggismatinu, hvaða aðilar það voru sem fengu það hlutverk að gera þessa úttekt, og síðan um það hvort þessar spjaldtölvur yrðu notaðar í einhverjum öðrum tilgangi en fyrir skýrsluskrifin. Nú skilst mér að það eigi að fara að hefja mælingar á útkallshraða lögreglubíla, svo mikið fæ ég lesið út úr fjármálaáætlun hæstv. ríkisstjórnar Ég hef hug á því að vita hvort það standi til að nota spjaldtölvur til að mæla útkallshraða lögreglunnar eða hvort það standi til að kaupa einhvern annan búnað, hvort ráðherra sé meðvituð um það. Það er sem sagt hver það var sem sá um öryggisúttektina fyrir hæstv. dómsmálaráðherra og svo hvort til standi að nota spjaldtölvurnar í einhverjum öðrum tilgangi en að skrifa út skýrslur, sem vonandi eru mjög einfaldar og þarf ekki að pikka inn á spjaldtölvur í miklum mæli.