146. löggjafarþing — 54. fundur,  4. apr. 2017.

meðferð sakamála.

374. mál
[14:44]
Horfa

dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það var eitthvert ráðgjafarfyrirtæki í rafrænum öryggismálum, mér er tjáð að það heiti Stiki, sem lagði mat á áhættuna sem þessu fylgir. Ég vil hins vegar vekja athygli á því að gert er ráð fyrir því í frumvarpinu að ráðherra geti sett reglugerð um nánari framkvæmd á rafrænni undirritun. Það er ekki útilokað að það þurfi að gera vegna þess að það þarf að tryggja að undirritunin sé óhrekjanleg og að afhendingin fari fram með öruggum og sannanlegum hætti, eins og segir í greinargerðinni.

Ég hef ekki vitneskju um það og það eru engin áform uppi um það, a.m.k. ekki formleg, og mér ætti að vera kunnugt um það, að þessar spjaldtölvur verði notaðar til einhvers annars en að skrifa skýrslur. Ég þekki það ekki og held að ég geti fullyrt að spjaldtölvurnar sjálfar séu ekki þannig tæknilega útbúnar að þær geti t.d. nýst við hraðamælingar eða einhvers konar mælingar. En ég skal ekki fullyrða um það. Ef það er mögulegt að nota spjaldtölvurnar til einhvers fleira myndi ég fagna því og tel að menn ættu að reyna að reyna að finna þessum spjaldtölvum frekari not. Ég hvet hv. allsherjar- og menntamálanefnd til að spyrjast sérstaklega fyrir um þetta og kanna það. Það gæti komið til þess að þá þyrfti að renna frekari lagastoð undir slíkt og mér fyndist sjálfsagt a.m.k. að skoða það og að þingið kæmi þá að því.