146. löggjafarþing — 54. fundur,  4. apr. 2017.

vegabréf.

405. mál
[14:46]
Horfa

dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um vegabréf, nr. 136/1998. Með frumvarpi þessu er lögð til sú breyting að Þjóðskrá Íslands verði veitt heimild til að gera samninga um vegabréf og framleiðslukerfi fyrir vegabréf til allt að tíu ára.

Samkvæmt 1. mgr. 40. gr. laga um opinber fjármál, nr. 123/2015, er ríkisaðilum í A-hluta heimilt með samþykki ráðherra að semja um framkvæmdir, rekstur eða önnur afmörkuð verkefni til lengri tíma en eins árs en þó ekki lengur en í fimm ár. Í 2. mgr. 40 gr. sömu laga er heimilt að fengnu samþykki Alþingis að semja um framkvæmdir, rekstur eða önnur afmörkuð verkefni til lengri tíma en fimm ára. Með samþykki Alþingis er þá að sjálfsögðu verið að vísa til lagaheimildar.

Þjóðskrá Íslands hefur um nokkurt skeið undirbúið útboð vegna innkaupa á vegabréfum og endurnýjunar framleiðslukerfis fyrir vegabréf. Núverandi kerfi er í eigu Þjóðskrár Íslands og er komið til ára sinna. Það er mat Þjóðskrár Íslands, sem ráðuneytið hefur fallist á, að mun hagkvæmara sé að semja um leigu á nýju kerfi til að minnsta kosti átta ára, að undangengnu útboði að sjálfsögðu, frekar en að breyta gamla kerfinu.

Ráðuneytið og Þjóðskrá Íslands eru sammála um að sú leið hafi minnstan kostnað í för með sér, tryggi góða þjónustu, takmarki áhættu við framleiðsluna og uppfylli um leið öll öryggisskilyrði.

Rétt er að taka fram að mjög miklar kröfur eru gerðar til framleiðslu vegabréfa og íslenska ríkið þarf að hafa greiðan aðgang að vegabréfum til útgáfu sem uppfylla ströngustu skilyrði sem gerð eru á alþjóðavettvangi. Íslensk vegabréf eru verðmæt í ljósi þess að þau veita handhöfum þeirra ekki eingöngu aðild að Íslandi heldur að öllu Schengen-svæðinu svo dæmi sé nefnt. Því þarf að vera mjög erfitt að falsa vegabréfin og þau þurfa að uppfylla öryggiskröfur sem sýnt þykir að muni aukast með árunum.

Ýmsir þættir hafa áhrif á það að hagkvæmara er að semja til átta ára en fimm ára. Þar má t.d. nefna að undirbúningur útboðs tekur um tvö ár og samningskostnaður er mikill. Ef samið yrði til fimm ára yrði að fara að huga að nýju útboði eftir þrjú ár í stað sex ára ef samið yrði til átta ára. Þannig yrði samningskostnaður fyrir íslenska ríkið lægri ef samið yrði til átta ára en fimm ára. Þá er gert ráð fyrir að átta ára samningstími leiði auk þess til hagstæðari samninga og aukins öryggis í aðföngum fyrir íslenska ríkið, þ.e. vegabréfunum sjálfum.

Með frumvarpinu er því lagt til að Alþingi samþykki heimild til handa Þjóðskrá Íslands til að gera samning um þessi vegabréfakerfi til allt að tíu ára. Þar sem líklegast þykir að sömu aðstæður verði fyrir hendi að afloknu samningstímabili er lagt til að samþykkið verði viðvarandi en ekki til bráðabirgða en sett þak á samningstímann, sem sagt tíu ár. Rétt er að geta þess að nú þegar hafa verið gerðar ráðstafanir til að fjármagna samning til átta ára.

Virðulegi forseti. Ég hef reifað helstu atriði frumvarpsins og legg til að því verði að lokinni þessari umræðu vísað til allsherjar- og menntamálanefndar og til 2. umr.