146. löggjafarþing — 54. fundur,  4. apr. 2017.

vegabréf.

405. mál
[15:04]
Horfa

dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil árétta að í núgildandi lögum um vegabréf, nr. 136/1998, kemur fram í 4. mgr. 2. gr. að Þjóðskrá Íslands geti falið öðrum að annast einstök verkefni við framleiðslu og skráningu upplýsinga í vegabréfabók. Það er líka skemmtilegt að minnast á það að í 5. mgr. kemur fram að vegabréf er eign íslenska ríkisins, svo að því sé haldið til haga. Heimildin hefur því verið til staðar og verður eftir sem áður til staðar fyrir Þjóðskrá Íslands að fela öðrum ákveðin hlutverk við útgáfu vegabréfa. Þetta frumvarp lýtur ekki að neinni formbreytingu hvað það varðar. Hér er einungis verið að fá heimild Alþingis til að gera samning til lengri tíma en fimm ára, rétt eins og menn gera til dæmis í fjárlögum, en þar er lagaheimild fyrir ríkið til að gera húsaleigusamninga til lengri tíma en fimm ára.

Það er almenna reglan í íslenskum lögum hvað varðar fjármál ríkisins að stofnanir ríkisins og einstök embætti hafa ekki heimild til að gera samninga til lengri tíma en fimm ára og það á við um hvað sem er. Ekki má gera húsaleigusamning til lengri tíma en fimm ára nema með lagaheimild. Þegar kemur að húsaleigusamningum, ég tek það bara sem dæmi, er algengt að sú lagaheimild sé sett fram í fjárlögum. Hér er hins vegar verið að leggja til að í stað þess að hafa slíka heimild í fjárlögum hvert einasta ár sé það afmarkað í lögum, af því að við búum svo vel að við höfum lög um útgáfu vegabréfa fari best á því að hafa þessa heimild viðvarandi í þeim lögum þannig að hægt sé að bregðast við og fá hagkvæmustu samninga, hvort sem menn ætla að kaupa eða leigja kerfið. Ég vek athygli á því að jafnvel þótt menn ætluðu að kaupa kerfi gætu menn viljað semja um að fá að borga það á lengri tíma en fimm eða sex árum og þá þyrfti líka lagaheimildir til þess.