146. löggjafarþing — 54. fundur,  4. apr. 2017.

skattar, tollar og gjöld.

385. mál
[15:10]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Benedikt Jóhannesson) (V):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á ýmsum lagaákvæðum um skatta, tolla og gjöld. Þau er lögð fram öll saman samkvæmt hefð.

1. Leiðréttingar á ákvæðum laga um tekjuskatt og laga um tryggingagjald. Vísun til sjómannaafsláttar verði felld brott í lögum um tekjuskatt í ljósi þess að sjómannaafsláttur var felldur niður frá og með 1. janúar 2014. Þá er í lögum um tekjuskatt að finna vísun til laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Ákvæðin fjalla um frádrátt vegna iðgjalda launþega og fólks sem vinnur við eigin atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi sem greidd eru til lífeyrissjóða, viðskiptabanka, sparisjóða og verðbréfafyrirtækja og líftryggingafélaga. Lagt er til að tilvísanirnar taki einnig til útibúa erlendra aðila hér á landi.

Að auki er í lögum um tryggingagjald kveðið á um að tekjur af almennu tryggingagjaldi, umfram það hlutfall sem renna skal til jöfnunar og lækkunar örorkubyrði lífeyrissjóða, renni til Tryggingastofnunar ríkisins til að fjármagna lífeyris- og slysatryggingar almannatrygginga. Lögð er til sú leiðrétting að við upptalninguna í lögunum verði bætt tölulið sem mælir fyrir um það hlutfall sem Fæðingarorlofssjóður skal fá í sinn hlut af gjaldstofninum. Það sem umfram er rennur þá til Tryggingastofnunar ríkisins til að fjármagna lífeyris- og slysatryggingar almannatrygginga eins og hingað til. Einnig er lagt til að leiðrétt verði tilvísun til brottfallinna laga.

2. Samsköttun félaga. Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á ákvæði tekjuskattslaga um samsköttun í kjölfar álits ESA, Eftirlitsstofnunar EFTA, frá 7. apríl 2016, þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að íslenskar reglur um samsköttun félaga brytu í bága við EES-samninginn, um staðfesturétt og frjálst flæði fjármagns, með því að leyfa aðeins hérlendum félögum með ótakmarkaða skattskyldu að sækja um og fá heimild til samsköttunar. Samsköttun verði einnig leyfð með hlutafélögum heimilisföstum í öðru aðildarríki á Evrópska efnahagssvæðinu, aðildarríki stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu eða í Færeyjum, ásamt föstum starfsstöðvum félaga innan Evrópska efnahagssvæðisins. Samsköttunin er háð skilyrðum sem m.a. eru að danskri fyrirmynd. Með samsköttun félaga yfir landamæri eykst til muna þörf fyrir einfaldara regluverk. Því er lagt til að ákvæði um tapsfrádrátt verði breytt til einföldunar þar sem mikil brögð hafa verið að því að nýting eldra taps sé með röngum hætti.

3. Takmörkun á frádrætti vaxtagjalda. Breyting á ákvæði tekjuskattslaga fjallar um takmörkun á frádrætti vaxtagjalda. Reglan var lögfest með lögum um aðgerðir stjórnvalda gegn skattsvikum o.fl. og var ætlað að koma í veg fyrir að fjölþjóðlegar fyrirtækjasamstæður gætu dregið úr skattgreiðslum sínum með því að fjármagna félag í einu ríki með láni frá félagi innan samstæðu sem er í öðru ríki ef skatthlutfall þar er lægra. Í meðförum efnahags- og viðskiptanefndar á frumvarpi því sem varð að áðurnefndum lögum var gerð sú breyting að ákvæðið ætti ekki við í því tilviki að lánveitandi bæri ótakmarkaða skattskyldu hérlendis. Í áliti nefndarinnar kom fram að vandamál sem tengjast þunnri eiginfjármögnun væru eðli málsins samkvæmt hverfandi þegar bæði lántaki og lánveitandi væru skattskyldir hérlendis því að fjárhæð til frádráttar hjá lántaka kæmi þá til skattlagningar hjá lánveitanda. Lagt er til að undantekning þessi verði felld brott þar sem líkur eru á að hún gangi gegn EES-rétti.

4. Útleiga íbúðarhúsnæðis, frístundahúsnæðis og annars húsnæðis. Þann 1. janúar 2017 voru gerðar breytingar á lögum um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald. Einstaklingum var heimilað að starfrækja heimagistingu og leigja út lögheimili sitt eða eina aðra fasteign gegn skráningu hjá sýslumanni. Í lögunum eru skilyrði að fjöldi útleigðra daga í báðum eignum samanlagt skuli ekki fara yfir 90 daga á hverju almanaksári eða samanlagðar tekjur af leigu eignanna skuli ekki nema hærri fjárhæð en kveðið er á um í lögum um virðisaukaskatt, þ.e. 2 millj. kr. á ári.

Í skattframkvæmd hafa komið upp álitamál um hvenær tekjur af sölu einstaklinga á gistingu í formi heimagistingar teljist til atvinnurekstrar eða sjálfstæðrar starfsemi sem skattlögð er eins og aðrar tekjur einstaklinga af atvinnurekstri, eða hvenær tekjur af slíkri sölu eru skilgreindar sem fjármagnstekjur einstaklinga utan rekstrar. Skýr greinarmunur verði gerður á skattalegri meðferð leigutekna eftir því hvort um er að ræða:

a) útleigu til varanlegrar búsetu leigutaka,

b) heimagistingu samkvæmt lögum um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald og

c) aðra útleigu á íbúðarhúsnæði í atvinnuskyni eða sjálfstæðri starfsemi.

Ef um varanlega búsetu leigutaka í íbúðarhúsnæði er að ræða og sérgreindar húseignir eiganda íbúðarhúsnæðis eru ekki fleiri en tvær skuli ávallt gengið út frá því að ekki sé um atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi að ræða samkvæmt lögum um tekjuskatt. Skal þá skattleggja umræddar tekjur sem fjármagnstekjur utan rekstrar.

Tekjur vegna heimagistingar eins og hún er skilgreind í lögum um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald bera í dag eftir atvikum 20% fjármagnstekjuskatt, þ.e. tekjur af heimagistingu sem ekki er stunduð í atvinnurekstri, eða eru skattlagðar sem tekjur einstaklings af atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi. Kveðið er skýrt á um að tekjur einstaklinga af útleigu í formi heimagistingar teljist ekki til atvinnurekstrar eða sjálfstæðrar starfsemi ef einstaklingur hefur fengið leyfi fyrir heimagistingu samkvæmt lögunum hjá sýslumanni og uppfylli að öðru leyti þau skilyrði sem gilda um heimagistingu samkvæmt þeim lögum sem og reglugerð þar um. Af því leiðir að með breytingunni verður kveðið skýrt á um að tekjur vegna heimagistingar teljist til fjármagnstekna einstaklinga utan rekstrar og beri 20% fjármagnstekjuskatt, án nokkurs frádráttar frá leigutekjum.

Ef leiga einstaklings á íbúðarhúsnæði telst hvorki vera leiga til varanlegrar búsetu leigutaka né fellur í flokk heimagistingar skal útleigan teljast til hefðbundins atvinnurekstrar og bera skatt samkvæmt því.

5. Undanþága og endurgreiðsla virðisaukaskatts á grundvelli alþjóðasamninga o.fl. Ísland hefur skuldbundið sig á grundvelli ýmissa alþjóðasamninga og tvíhliða samninga til að veita skattundanþágur og undanþágur frá greiðslu aðflutningsgjalda og óbeinna skatta. Þá hefur Ísland jafnframt skuldbundið sig til að veita erlendum liðsafla og borgaralegum deildum slíkra liðsafla samsvarandi undanþágur. Eftir brottför varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli var lögum breytt og heimildin afnumin.

Lagt er til að skýrar verði kveðið á um að alþjóðastofnanir og aðrir hlutaðeigandi aðilar sem flytja til landsins vörur á grundvelli alþjóðasamninga eða eftir atvikum tvíhliða samninga sem Ísland er aðili að skuli undanþegnar sköttum og aðflutningsgjöldum við innflutning. Þá er lagt til að kveðið verði á um að erlendur liðsafli og borgaralegar deildir hans skuli vera undanþegnar greiðslu skatta og aðflutningsgjalda við innflutning. Jafnframt er brugðist við því að ekki er nú til staðar í lögum heimild til endurgreiðslu skatta og gjalda vegna kaupa þessara aðila á vörum og þjónustu hér á landi.

6. Saknæmi verknaðar við veitingu rangra eða villandi upplýsinga við innflutning eða vanrækslu upplýsingagjafar. Saknæmi brota gegn ákvæðum tollalaga er bundið við að þau hafi verið framin af ásetningi eða gáleysi, nema annað sé tekið fram. Brot gegn ákvæðum 172. gr. tollalaga, sem fjalla um refsiábyrgð og refsingar vegna rangra eða villandi upplýsinga vegna innflutnings vöru, varða hins vegar ekki refsingu nema þau hafi verið framin af ásetningi eða að lágmarki stórfelldu gáleysi. Eru því gerðar strangari kröfur þegar um brot gegn fyrrgreindri grein tollalaga er að ræða en varðandi brot gegn ákvæðum tollalaga almennt. Reynsla tollyfirvalda hefur sýnt að nær ómögulegt er að sýna fram á ásetning eða stórfellt gáleysi brotamanns. Í allnokkrum málum hafa meintir brotamenn verið sýknaðir af broti þrátt fyrir að upplýst hafi verið og jafnvel viðurkennt að réttar upplýsingar hafi ekki verið veittar.

7. Brottfall ákvæðis í tollalögum vegna takmörkunar á útflæði gjaldeyris. Þann 12. mars sl. setti Seðlabanki Íslands nýjar reglur um gjaldeyrismál. Bann í tollalögum við skráningu viðskiptaverðs í íslenskum krónum er þar með orðið marklaust.

8. Grindarbílar. Vörugjald af grindarbílum verði samræmt og það nemi 13%. Árið 2010 var skattalegri meðhöndlun grindarbíla breytt, en niðurstaðan hefur hins vegar komið nokkuð afkáralega út í framkvæmd. Þannig hafa ökutæki sem flutt hafa verið inn ýmist borið 0%, 13% eða upp í 65% vörugjald, allt eftir því hvernig þau líta út við innflutning. Í ljósi niðurstaðna tveggja úrskurða yfirskattanefndar þurfa tollyfirvöld að leggja vandasamt heildarmat á útbúnað slíkra bifreiða við innflutning. Matið er nær óvinnandi í framkvæmd og fer gegn sjónarmiðum um einfalda skattframkvæmd.

9. Leiðréttingar á viðauka XIX við lög um úrvinnslugjald. Að lokum eru lagðar til leiðréttingar á viðauka XIX við lög um úrvinnslugjald. Vegna mistaka féllu niður nokkur tollskrárnúmer sem gera átti grein fyrir í viðaukanum auk þess sem gjöld reyndust ekki nægilega há í nokkrum tilvikum.

Virðulegi forseti. Tillögur frumvarpsins eru af margvíslegum toga og munu ekki hafa teljandi áhrif á afkomu ríkissjóðs samanlagt verði frumvarpið óbreytt að lögum. Áhrif einstakra tillagna eru þó nokkuð mismunandi og er fjallað um það í greinargerð. Að þessu sögðu legg ég til að frumvarpi þessu verði vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar og til 2. umr. að lokinni þessari umræðu.